Sigurjón Þórðarson, fyrrverandi þingmaður, verður oddviti Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi. Í gær var greint frá því að Jakob Frímann Magnússon hefði misst oddvitasæti sitt í kjördæminu.
Frá þessu er greint í Vikublaðinu.
Sigurjón Þórðarson sat á Alþingi fyrir Frjálslynda flokkinn árin 2003 til 2007, en þá í Norðvesturkjördæmi, en Sigurjón er Skagfirðingur. Sigurjón hefur verið varaþingmaður fyrir Flokk fólksins í Norðvesturkjördæmi á liðnu kjörtímabili.
Sigurjón er líffræðingur og framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra. Hann hefur einnig verið goði hjá Ásatrúarfélaginu.