Myndband sem Nútíminn hefur birt á Youtube sýnir líkamsárás sem átti sér stað í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í síðustu viku. Að sögn Nútímans sýnir myndbandið þrjá hælisleitendur ráðast á íslenskan nemanda með höggum og spörkum. Þrír starfsmenn skerast í leikinn og binda endi á ofbeldið.
Nútíminn fullyrðir í frétt sinni að atvikið sé eitt af mjög mörgum sem átti hafi sér stað í skólanum að undanförnu þar sem skerst í odda milli nemenda úr röðum hælisleitenda og íslenskra nemenda.
Rætt er við Kristján Ásmundsson skólameistara, sem segir atvikið óásættanlegt. „Skólinn hafi upptökur af atvikinu enda hafi öryggismyndavélum verið fjölgað í kjölfar ítrekaðra ofbeldismála og því hafi skólinn góða yfirsýn yfir það sem gerðist þennan dag sem og aðra daga sem þessi mál hafa komið upp,“ segir í fréttinni. Aðspurður um hvað verið sé að gera til að stemma stigu við ofbeldi í skólanum, segir Kristján:
„Við höfum viðbragðsáætlun hér innanhúss sem hefur verið endurskoðuð en við erum að bíða eftir áætlun sem ríkislögreglustjóri er að útbúa fyrir skólana og á að koma fljótlega. Okkar skilaboð til starfsmanna eru þau að kalla strax til lögreglu ef einhver slagsmál eru í uppsiglingu eða eru í gangi. Fyrstu viðbrögð eru oft að grípa inní og stöðva ofbeldið eins og var nú síðast. Ef einhver væri að hóta vopni sem vonandi verður aldrei þá á að kalla strax til lögreglu og þeir eru mjög fljótir á staðinn.“
Til að sjá myndbandið þarf að smella á tengilinn „Watch on YouTube“ en myndbandið er ekki fyrir viðkvæma.