Bandaríkjamaðurinn Malcolm Reynolds hefur lagt það í vana sinn að taka þátt í lottóinu með því að kaupa miða þegar hann er á ferðinni. Hann hefur hins vegar ekki verið jafn duglegur að kanna hvort vinningur leynist á þeim.
Hann hafði vikum saman ekið um með stafla af gömlum lottómiðum í bílnum, eða þar til vinkona hans benti honum á að kannski væri ráð að kanna hvort vinningur leyndist á einverjum þeirra.
Vinkona hans náði í app sem gerir notendum kleift að skanna miðana og komast strax að því hvort vinningur leynist á þeim. Eftir að hafa fundið nokkra litla vinninga hér og þar trúði Malcolm ekki eigin augum þegar hann sá að 50 þúsund Bandaríkjadalir, tæpar sjö milljónir króna, leyndust á einum miðanum.
„Ég sagði henni að skanna miðann aftur og svo þegar ég kom heim fletti ég tölunum sjálfur upp. Ég trúði þessu ekki,“ segir Malcolm í samtali við Shore News.
Um var að ræða vinning í Powerball-lottóinu sem hefur í gegnum tíðina gefið vel í aðra hönd. Í vikunni datt einn íbúi í Georgíuríki í lukkupottinn þegar hann vann 478 milljónir dollara í umræddu lottói. Þá eru tæp tvö ár síðan Edwin Castro vann 2 milljarða dollara en það er einn allra stærsti lottóvinningur sögunnar.