fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fókus

Selma Soffía: „Ég viðurkenni það í dag að ég var að flýja land“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Fimmtudaginn 24. október 2024 12:00

Selma Soffía Guðbrandsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hlaðvarpsstjórnandinn og athafnakonan Selma Soffía Guðbrandsdóttir er gestur vikunnar í Fókus.

Í þættinum segir hún frá sambandi sem hún var í frá 16 til 23 ára. Þetta var á erfiðum tíma, mikilvægum mótunarárum, og hafði mikil áhrif á hana. Selma var ung og hélt að svona ætti ást að vera, að það væri enginn annar þarna úti fyrir hana og að þetta ætti hún skilið. Hún leyndi ofbeldinu, sem var mest andlegt en einnig líkamlegt, fyrir fjölskyldu sinni og gleymir ekki þegar hún var að útskrifast úr MS og þurfti að hylja annan handlegginn því hann var svo blár og marinn eftir þáverandi kærasta. Selmu tókst að slíta sambandinu eftir atvik þar sem ekki var hægt að leyna þessu lengur. Hún flutti erlendis og viðurkennir að hún hafi einfaldlega verið að flýja land. Þar með hófst sjálfsvinnan sem hefur skilað henni á þann stað sem hún er á í dag.

Selma er hamingjusöm í heilbrigðu sambandi, veit hver hún er og hvað hún vill. Hún lætur álit annarra ekki hafa áhrif á sig, enda ekki að lifa lífinu fyrir þá, heldur sig sjálfa.

Horfðu á þáttinn hér að neðan eða hlustaðu á Spotify.

video
play-sharp-fill

Þegar Selma hætti með kærastanum sínum var hún 23 ára og á slæmum stað andlega. Árin á undan hafði hún sokkið í djúpt þunglyndi og gat oft ekki komið sér fram úr rúmi til að byrja daginn. „2019 var rosalega erfitt ár fyrir mig á mjög margan hátt,“ segir hún. Þau hættu saman 1. janúar 2019 eftir atvik á áramótunum fyrir framan fjölskyldu Selmu sem hún ræðir nánar um í þættinum.

Selma var á fullu í fjarþjálfun og léttist hratt, eftir að hafa þyngst mikið á tímabilinu þar á undan. En andlega vinnan var mikilvægust og hún var ekki að sinna henni. „Ég var aldrei góð 100 prósent inn í mér.“

Selma Soffía Guðbrandsdóttir.

Keyrði líkamann í þrot

Selma keyrði sig út og stressið fór að segja til sín. „Ég á það svolítið til að drekkja mér í vinnu. Ég var að vinna 80 prósent starf í grunnskóla og var einnig í 30 prósent starfi í Maí verslun um tíma, ásamt því að vera í fullu háskólanámi að skila af mér BA-ritgerð í sálfræði.“

Hún fékk svæsin útbrot um allan líkama. „Bara út af andlegu stressi,“ segir hún. Það gerðist aftur seinna sama ár og sögðu læknar að hún þyrfti að slaka á. „Það var hvert áfallið á fætur öðru. Mér var nauðgað þetta sumar. Það var alltaf meira og meira að gerast.“

Sumarið 2020 fékk Selma nóg af Íslandi og flutti erlendis. „Ég sótti um nám í Barcelona, ég viðurkenni það í dag að ég var að flýja land, hundrað prósent.“ Hún kláraði meistaragráðu í mannauðsstjórnun í borginni og naut sín í botn. Það hafði góð áhrif á hana að vera í öðru landi og fá tækifæri til að enduruppgötva sig á ný.

„Að hafa flutt erlendis bjargaði mér sem persónu,“ segir hún.

Flutti ein til Marbella

„Ég drekkti mér í sjálfshjálpar YouTube-myndböndum, bókum, hlaðvörpum, sem ég gæti ekki mælt meira með. Það kenndi mér ótrúlega mikið. Svo tók ég stökkið eftir námið að flytja ein til Marbella, fékk starf þar sumarið 2022.“

Það var í fyrsta skipti á ævinni sem Selma var upp á eigin spýtur en þegar hún bjó í Barcelona bjó hún hjá systur sinni. Marbella í Andalúsíu var áskorun til að treysta á sig sjálfa og finna eigin leið.

Selma flutti aftur til Íslands í mars í fyrra. Fljótlega kynntist hún kærastanum sínum og stóð hún frammi fyrir nýrri áskorun; að læra að vera í heilbrigðu sambandi. Hún segir frekar frá því í þættinum.

@skipulagt.chaosVið erum öll sérstök á okkar hátt og við þurfum ekki að bera okkur saman við aðra á samfélagsmiðlum ❤️✨♬ original sound – Skipulagt Chaos Podcast 💙

Umtalið truflar ekki

Selma skaust fram á sjónarsviðið fyrr á árinu þegar hún byrjaði með hlaðvarpið Skipulagt Chaos ásamt Steinunni Ósk Valsdóttur. Þættirnir hafa vakið mikla athygli, sérstaklega klippur úr þáttunum sem hafa farið í dreifingu um netheima. Þar má helst nefna myndböndin þar sem þær sögðu karlmenn eiga að borga á fyrsta stefnumóti og þegar þær vinkonurnar sögðust helst vilja sleppa við að taka bensín og að karlmaður sjái um allt bílavesen fyrir þær.

Aðspurð hvernig það hafi verið að verða allt í einu þekkt og verða fyrir neikvæðu umtali í kjölfarið segir Selma að þetta hafi verið ný tilfinning.

„Ég hafði í rauninni aldrei upplifað þetta áður, aldrei upplifað eitthvað svona umtal frá ókunnugu fólki sem hefur aldrei hitt mig,“ segir Selma.

Aðsend mynd.

Hún kippti sér ekki upp við það sem ókunnugt fólk hafði að segja en sárnaði þegar persónulega líf hennar blandaðist í umræðuna.

„Þetta voru blendnar tilfinningar. Ég er mjög athyglissjúk þannig að það var partur af mér sem fannst geggjað að við værum að fá athygli, sama hvort það væri neikvæð eða jákvæð, sem ég held að sé rétt hugsun,“ segir hún og bætir við að mótlæti í einkalífinu hafi haft meiri áhrif.

„Mér er sama um ókunnugt fólk en ef það er nálægt mér og getur kannski haft áhrif á náin sambönd, þá tek ég það svolítið inn á mig.“

Þetta er ekki svona alvarlegt

Selma segir hún taki hvorki sér né þessu umtali of alvarlega. „Ég hlæ af þessu. Ég hef svolítið talað um þetta á TikTok-síðunni minni, að ég geri mér grein fyrir því að fólk sem er öfundsjúkt eða hefur þörf til að tala illa um einhvern opinberlega á netinu, líður ekki vel sjálfu. Ég er komin með nýtt mottó: „I hope you heal“, því þér getur ekki liðið vel ef þú þarft endilega að kommenta eitthvað svona hjá einhverjum.“

„Við tökum fram í byrjun þáttarins: „Ekki taka neinu alvarlega,“ því við erum rosa kaldhæðnislegar, alla daga,“ segir hún.

@skipulagt.chaos🥲♬ original sound – Skipulagt Chaos Podcast 💙

„Margt af því sem við segjum á sér enga stoð í raunveruleikanum og við erum með frekar svartan húmor. Fólk tók þessu svo rosalega bókstaflega að fólk var alveg: „Vó.“ Þetta er ekki svona djúpt.“

Selma segist stundum ekki skilja hvernig fólk nennir að eyða svona miklu púðri í að gagnrýna það sem þær eru að gera á meðan það eru stærri hlutir að gerast.

„Það sem fer mest í taugarnar á mér, þegar eitthvað fær svona mikla orku frá fólki, af því að ég er mikið að spá í eins og Palestínu í dag, það sem var að gerast á Stuðlum síðustu helgi, af hverju getum við ekki sett þessa orku í mikilvægari málefni, frekar en að pirra okkur á því að einhver kærasti bjóði kærustunni sinni út að borða. Getum við aðeins sett pústað í eitthvað sem skiptir meira máli?“

Aðsend mynd.

Skilaboð til stúlkna

Að lokum spurðum við Selmu hvaða skilaboð hún myndi vilja miðla til stúlkna, til hennar sjálfrar þegar hún var yngri.

„Ég myndi klárlega segja, þetta er kannski alltaf sagt, en reyndu að finna sjálfa þig sem fyrst. Hættu að spá í öðrum. Hættu að spá í núverandi kærasta. Hættu að spá hvað fjölskyldu þinni finnst. Hugsaðu aðeins inn á við og athugaðu hvað langar þig? Hvað er lífið sem þig langar að lifa? Ef þú ert í einhverju sambandi sem þú veist að er ekki besta sambandi í heimi, þá er ekkert slæmt við það að vera ein.“

Selma segir að hún hafi sjálf verið hrædd við að vera ein en í dag er hún mjög þakklát fyrir þann tíma. Hún lærði á sjálfa sig og byrjaði að trúa meira á eigin getu og virði. Sú vinna hefur skilað henni á þann stað sem hún er í dag.

Horfðu á þáttinn með Selmu hér að ofan, einnig er hægt að hlusta á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Hægt er að fylgja Selmu á Instagram og TikTok. Smelltu hér til að hlusta á Skipulagt Chaos.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2
Fókus
Fyrir 4 dögum

Nýjar myndir af stórstjörnunni valda miklum áhyggjum

Nýjar myndir af stórstjörnunni valda miklum áhyggjum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Valentína Hrefnudóttir: „Það versta sem gat gerst var að ég myndi prufa þetta og hata þetta“

Valentína Hrefnudóttir: „Það versta sem gat gerst var að ég myndi prufa þetta og hata þetta“
Hide picture