Meðalmanneskjan losar 0,5 til 1,5 lítra af lofti (prumpi) á dag. Flest prumpanna eru lyktarlaus en fæstir taka sénsinn á að prumpa því það er erfitt að segja til um það fyrir fram hvort prumpið verði lyktarlaust. Við neyðumst því öll stundum til að halda prumpi í okkur.
En hvaða áhrif hefur það á líkamann að halda prumpi í okkur? Loftið, sem við prumpum, er aukaafurð frá meltingarkerfinu og ef við höldum því í okkur getur það valdið óþægindum, uppþembu og jafnvel ógleði.
Ellen Stein, meltingarfæralæknir, sagði í samtali við Live Science að líkaminn hafi sínar aðferðir til að takast á við uppsöfnun lofts (prumps). Hann sagði að margar breytingar og ferli eigi sér stað í maga okkar hjá bakteríunum sem þar eru og hjálpa okkur með meltinguna. „Góðu fréttirnar eru að við erum með ferli fyrir þetta, slæmu fréttirnar eru að loftið verður að komast út á endanum,“ sagði hann.
Um leið og þú tekur bita af matnum þínum, byrjar líkaminn að brjóta hann niður. Til dæmis byrji tennurnar á að mylja matinn niður og munnvatnið brjóti hann niður. Þegar maturinn fari síðan niður eftir meltingarveginum er hann brotinn enn frekar niður. Örverur í maganum hjálpa síðan til við að brjóta matinn niður í grundvallareiningar. Blóðið getur síðan tekið þessar einingar í sig og flutt um líkamann sem orku. En líkaminn getur ekki notað allt úr matnum, sérstaklega ef hann getur ekki brotið efnin alveg niður.
En loft safnast meira að segja upp þegar meltingin starfar eðlilega. Samtök bandarískra örverufræðinga segja að brennisteinsvetni, sem getur valdið lykt sem minnir á úldin egg, sé búin til af nytsömum bakteríum sem brjóta prótín niður. Enn neðar í meltingarveginum eru kolvetni brotin niður og aukaafurðir þeirra af vetni og metani bætast við loftuppsöfnun líkamans.
Prump er hin náttúrulega aðferð líkamans til losna við óþarfa loft. En áður en hægt er að losa þetta loft fer það í gegnum hringvöðvann sem er síðasti viðkomustaðurinn, nokkurs konar eftirlitsstöð sem segir fólki hvenær það á að prumpa.
Hringvöðvinn er eini hluti meltingarferlisins sem við höfum meðvitaða stjórn á. Þess vegna getum við ákveðið að nú sé ekki rétti tíminn til að prumpa og segjum hringvöðvanum að halda aftur af því. Loftið hefur enga aðra leið til að komast út og fer því aftur inn í ristilinn.
En líkaminn reynir mikið til að losna við loftið. Prump, sem er ekki hleypt út að degi, eru að mestu losuð í klósettferðum eða þegar við sofum á nóttunni.