Mummi Týr Þórarinsson, fyrrverandi forstjóri Götusmiðjunnar, sækist 1. sæti Pírata í Suðurkjördæmi. Mummi Týr hefur undanfarin ár verið búsettur í hinu sögufræga húsi, Gömlu Borg í Grímsnesi, ásamt eiginkonu sinni, Þórunni Wolfram. Mummi segir stefnu Pírata liggja vel að hans lífsskoðunum og hugmyndum hans um betra samfélag.
„Ég er fæddur og uppalinn í borginni en hef búið samanlagt í mörg ár á Suðurlandi síðustu tvo áratugi. Ég er menntaður kvikmyndagerðarmaður, starfaði sem slíkur fyrir alllöngu síðan og í dag starfa ég aftur sem slíkur í eigin nafni.
Flestir þekkja mig þó líklega frekar sem Mumma í Götusmiðjunni þar sem ég um langt árabil rak meðferðarheimili fyrir ungt fólk í vanda og var mjög hávær í samfélaginu við að vekja athygli á þeim málaflokki. Kem sjálfur úr heimi fíknar en hef verið réttu megin við línuna í yfir 30 ár.
Ég brenn fyrir mannréttindum, verndun og virðingu fyrir jörðinni okkar og alltaf tilbúinn að vera rödd fyrir þá sem hafa hana ekki.
Ég hef fylgst með pólitík alla tíð og stutt allskyns framboð í gegnum árin. Píratar hafa alltaf höfðað sterkt til mín og nú er ég kominn að fullu um borð. Grunnstefna Pírata liggur vel með lífsskoðunum mínum og hugmyndum um betra samfélag.
Ég vil taka þetta alla leið og óska eftir stuðningi til að leiða listann okkar í Suðurkjördæmi.“
Mummi rak Götusmiðjuna í 14 ár og á þeim tíma fóru um 2.000 börn í gegnum úrræðið. Mörg þeirra náðu svo í kjölfarið að koma undir sig fótunum á ný. Hann hefur því mikla innsýn sem og reynslu af stöðu ungmenna sem glíma við fíknivanda, sem líður illa og sem hafa dottið milli skips og bryggju í kerfinu. Honum er eins mjög annt um náttúruna, um dýrin og svo sveitina þar sem hann hefur nú skotið niður rótum.
Prófkjör Pírata hófst í gær og mun standa til klukkan 16:00 á þriðjudag. Kosið er á heimasíðu Pírata.