fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Skyndileg veikindi í fjöleignarhúsi undanfari ásakana um leynimakk og lögbrot

Ritstjórn DV
Mánudaginn 21. október 2024 13:15

Myndin tengist fréttinni ekki beint. Mynd: Fréttablaðið/GVA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd húsamála hefur sent frá sér álit vegna deilna í fjöleignarhúsi. Rót deilnanna er umdeildur húsfundur sem fór fram þrátt fyrir að einn eigandi íbúðar í húsinu hefði óskað eftir frestun vegna skyndilegra veikinda. Eigandinn óskaði eftir því að nefndin staðfesti að fundargerð húsfundarins sem og fundurinn sjálfur væru ólögleg og sakaði aðra eigendur í húsinu um að halda gögnum frá sér. Nefndin tók ekki undir það.

Það er ekki tekið fram í álitinu í hvaða sveitarfélagi húsið er en því er skipt í fjóra eignarhluta. Hinn ósátti eigandi á íbúð á 3. hæð en álitsbeiðni þess eiganda, sem er kona, beinist að gjörðum eigenda íbúðar á 4. hæð.

Húsfundurinn sem málið snýst um fór fram 23. júní 2022. Konan sem skaut málinu til nefndarinnar krafðist þess að viðurkennt yrði að fundargerð fundarins sem og húsfundurinn sjálfur væru ólögmæt. Einnig að viðurkennt yrði að þær ákvarðanir sem hafi verið teknar á fundinum séu ógildar og í engu bindandi fyrir konuna. Þá gerði hún kröfu um að viðurkennt yrði að eigendunum á 4. hæð bæri að afhenda henni staðfest endurrit af öllum fundargerðum frá 1. janúar 2020 til og með september 2023.

Ekkert komi fram

Í álitsbeiðninni segir konan að beiðnir hennar um staðfest ljósrit af fundargerðum í fundargerðarbók húsfélagsins hafi ítrekað verið hunsaðar. Í fundargerð húsfundar 23. júní 2022 hafi hvergi komið fram hvar fundurinn hafi verið haldinn, ekkert sé minnst á um að kosinn hafi verið fundarstjóri eða fundarritari tilnefndur. Það komi heldur ekkert fram um að fundargerðin hafi verið rituð í sérstaka fundargerðarbók og heldur ekkert um að fundargerðin hafi verið lesin upp í lok fundar og hún leiðrétt í samræmi við athugasemdir. Allt þetta sé brot á lögum um fjöleignarhús.

Í andsvörum sínum sögðu hinir eigendurnir að deilurnar við konuna ættu rætur sínar að rekja til ágreinings vegna nýframkvæmda á svölum íbúðar þeirra. Nefndin hefði áður tekið afstöðu til þeirra deilna. Boðað hefði verið til húsfundar 20. júní 2022. Vegna Covid smits eins íbúa hafi verið ákveðið að fresta fundinum til 23. júní. Fyrir þann fund hafi orðið annað COVID smit meðal íbúa en þá hafi verið ákveðið að ekki væri unnt að fresta fundinu aftur og ákveðið að nota atkvæðaseðla til ákvörðunar um frágang svalanna.

Í samræmi við ákvörðun húsfundarins 23. júní hafi verið greidd atkvæði með atkvæðaseðlunum, sem afhentir hafi verið öllum í húsinu, um samþykki húsfélagsins fyrir tilboði um frágang svalanna. Framkvæmdirnar hafi áður verið kynntar öllum eigendum með tölvupósti. Meirihluti eigenda hafi samþykkt framkvæmdirnar. Það sé ekki rétt sem konan haldi fram að hún hafi aldrei fengið fundargerð húsfundarins afhenta. Hún hafi fengið fundargerðina senda í tölvupósti tveimur dögum síðar.

Fullyrtu eigendurnir á fjórðu hæð að húsfundurinn og meðferð fundargerðarinnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði laga um fjöleignarhús.

Hélt að fundinum hefði verið frestað

Konan fékk tækifæri til að gera athugasemdir við andsvör eigendanna á fjórðu hæð. Í athugasemdunum sagðist hún fyrst hafa frétt af atkvæðagreiðslunni þegar hún las greinargerð þeirra, sem skilað var þegar deilurnar komu fyrst til kasta kærunefndar húsamála, í upphafi árs 2023, hálfu ári eftir að fundurinn og atkvæðagreiðslan fóru fram.

Daginn sem húsfundurinn hafi farið fram hafi hún sent öllum öðrum eigendum í húsinu tölvupóst og greint frá því að hún væri komin með hita og grunur væri um Covid smit hjá dóttur hennar. Í póstinum hafi hún farið fram á að fundinum yrði frestað af þessum orsökum eins og gert hefði verið þremur dögum áður. Engin andmæli hafi komið fram og því hafi hún talið öruggt að fundinum yrði frestað. Það hafi tekið hana næstu 10 daga að jafna sig á veikindunum. Hún hafi vegna veikindanna ekkert leitt hugann að tölvupóstum og því ekki frétt, fyrr en hálfu ári síðar, að fundurinn hefði verið haldinn þrátt fyrir beiðni hennar um frestun. Með þessu framferði hafi verið brotið á rétti hennar og augljóst sé að halda hafi átt henni frá fundinum.

Engin leynd

Í niðurstöðu sinni segir kærunefnd húsamála að gagnstætt því sem konan haldi fram sé það ekki í andstöðu við lög um fjöleignarhús að tilgreina ekki fundarstað í fundargerð húsfundar eða nöfn fundarstjóra og ritara. Það sé heldur ekki þörf á að bóka það sérstaklega í fundargerð að í lok húsfundar hafi fundargerðin verið lesin upp nema að fram hafi komið óskir um að hún yrði leiðrétt. Það ógildi heldur ekki húsfund að fundargerð hafi ekki verið rituð í sérstaka fundargerðarbók. Engar athugasemdir hafi borist við fundargerðina eftir að hún var send öllum eigendunum, þar á meðal konunni en eins og áður kom fram segist konan ekki hafa vitað af fundargerðinni fyrr en hálfu ári eftir að húsfundurinn fór fram. Nefndin segir það fráleitt að það geti valdið ólögmæti fundargerðar að þessi háttur hafi verið hafður á að því er virðist með samþykki allra í húsinu.

Nefndin tók sömuleiðis ekki undir þær fullyrðingar konunnar að fundargerðum og öðrum gögnum sem vörðuðu málefni hússins hefði verið haldið frá henni. Þvert á móti bendi gögn málsins til að engum gögnum hafi verið haldið frá konunni.

Kröfum konunnar var því alfarið hafnað.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?
Fréttir
Í gær

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt
Fréttir
Í gær

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti