Þetta sagði Marco Buschmann, dómsmálaráðherra Þýskalands, um helgina í kjölfar þess að 28 ára Líbani var handtekinn á laugardagskvöldið en hann er grunaður um að hafa ætlað að ráðast á ísraelska sendiráðið í Berlín.
Dpa skýrir frá þessu og segir að Buschmann hafi sagt að það sé mjög mikilvægt að vernda ísraelskar stofnanir í Þýskalandi á þessum tímum þar sem mikið hatur í garð Ísraels og gyðingahatur fer vaxandi um allan heim og stuðningur við íslömsk hryðjuverk fer vaxandi.
Hann sagði að lögreglan muni gera allt sem í hennar valdi stendur til að tryggja að gyðingahatarar og fólk sem hatar Ísrael fái ekki tækifæri til að hrinda hættulegum áætlunum sínum í framkvæmd.
Handtekni Líbaninn er að sögn lögreglunnar grunaður um að tengjast hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við Íslamska ríkið. Hann er talinn hafa ætlað að ráðast á sendiráðið með skotvopnum.
Lögreglan réðst inn í íbúð í Bernau, sem er um 10 km utan við Berlín, og handtók manninn. Þetta var gert í kjölfar ábendingar frá erlendri leyniþjónustu að sögn Bild.