Varnarmaðurinn Ben White er maður sem flestir kannast við en hann er leikmaður Arsenal í ensku úrvalsdeildinni.
White fékk lestur frá fyrrum þjálfara sínum hjá Leeds á sínum tíma en það var enginn annar en Marcelo Bielsa.
Bielsa er ansi harður í horn að taka en hann kom Leeds aftur í efstu deild áður en hann fékk sparkið að lokum.
White var lánaður til Leeds frá Brighton á sínum tíma og bjóst við að labba inn í byrjunarliðið en annað kom svo sannarlega á daginn.
,,Þegar ég kom fyrst til Leeds þá var ég mættur í búningsklefa aðalliðsins eftir tvo daga,“ sagði White.
,,Leikmenn aðalliðsins voru ekki mættir, þeir voru í fríi eða eitthvað álíka, þeir voru ekki þarna.“
,,Ekki löngu seinna var mér tjáð að ég væri í búningsklefa varaliðsins. Hann sparkaði mér úr klefa aðalliðsins og lét mig æfa með varaliðinu. Ég var þarna í fimm eða sex vikur. Ég hringdi í umboðsmanninn minn og spurði hvað væri í gangi.“
,,Bielsa sagði við mig að ég væri of hægur og að ég væri ekki að hugsa nógu hratt. Þegar hann segir eitthvað við þig þá hlustarðu og fylgir fyrirmælum. Hann sagði við mig að það væri svo mikið sem ég þyrfti að bæta.“