Alvarlegt atvik varð á Stuðlum í morgun þegar eldur kom upp á neyðarvistun. Barn lést og starfsmaður slasaðist. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Ólöfu Á. Farestveit, forstjóra Barna- og fjölskyldustofu.
„Öll vinna á heimilum og stofnunum Barna- og fjölskyldustofu miðar að því að öryggi barna og starfsfólks sé tryggt. Stofnunin harmar að það hafi ekki tekist í dag og er í djúpri sorg yfir þessu alvarlega atviki.
Aðgerðir stofnunarinnar frá í morgun hafa miðað að því að tryggja áfram öryggi og velferð allra sem málið snertir. Gerðar hafa verið ráðstafanir fyrir börnin sem voru vistuð á Stuðlum og áfallateymi Rauða krossins kallað til. Lögreglan fer með rannsókn málsins.
Ljóst er að húsnæði Stuðla er skemmt og ekki unnt að halda þar úti hefðbundinni þjónustu. Búið er að gera samkomulag við SÁÁ um tímabundin afnot af húsnæði á Vogi, þar hefur verið hliðrað til svo hægt sé að bregðast við stöðunni á meðan unnið er að viðgerðum á Stuðlum. Um er að ræða húsnæði sem er unnt að aðskilja frá almennri starfsemi þar sem sérfræðingar Stuðla og Barna- og fjölskyldustofu munu hlúa áfram að börnunum. Viðgerðum á Stuðlum verður flýtt eins og unnt er og áhersla lögð á að ljúka uppbyggingu annarra meðferðarúrræða sem unnið hefur verið að.
Fyrir hönd Barna- og fjölskyldustofu þakka ég viðbragðsaðilum og barnaverndarþjónustum sveitarfélaga fyrir viðbrögð þeirra í morgun. Ég þakka um leið SÁÁ fyrir skjót viðbrögð og stuðning.
Ég votta aðstandendum barnsins mína dýpstu samúð. “
RÚV greinir frá því að hinn látni var 17 ára piltur sem var vistaður á neyðarvístundardeild Stuðla.
Eldurinn kom upp í herbergi, en tilkynnt var um eldinn rétt fyrir klukkan sjö í morgun. Stuðlar er meðferðarstöð ríkisins fyrir börn og unglinga frá 12-18 ára. Stuðlar skiptast í þrjár deildir, neyðarvistun Stuðla, meðferðardeild og stuðningsheimilið Fannafold.