Ásta Óla skrifar:
Allir þurfa þak yfir höfuðið og þess vegna ætti það að vera frumskylda Alþingis að sjá til þess að almenningur sé ekki skilinn eftir bjargarlaus og án vonar um að geta eignast heimili. Það er mjög auðvelt að laga marga hluti með einni lagasetningu, bara ef ríkisstjórnin hefði hinn minnsta áhuga á því. Að ríkisstjórn Íslands skuli láta það viðgangast að bankarnir græði 100 þúsund miljónir og finnist það allt í lagi er aumkunarvert og ekki furða að almenningur sé tilbúinn að snúa baki við þeim sem enn mynda ríkisstjórn. Vilji ríkisstjórnarflokkarnir ekki þurrkast endanlega út í næstu Alþingiskosningum þá hafa þeir tækifæri til að snúa stöðu sinni sér í hag en þá þarf líka að setja ný lög á lánastofnanir landsins til að þeir haldi rekstrarleyfi sínu. (sérlög gætu verið gerð fyrir lífeyrissjóði og lánastofnanir sem eru með bílalán)
Það vantar lög um að bankar veiti viðskiptavinum sínum (LÖG)HEIMILISLÁN. Lán sem eingöngu eru ætluð fólki sem á eða er að kaupa sér eign, býr í henni og á þar lögheimili. HEIMILISLÁN ættu aldrei að vera fyrir fólk sem á 2 eða fleiri eignir. Það þarf að horfa til nágrannalanda. Í Færeyjum eru engir vextir á lánum (né fasteignagjöld) í Danmörku, Noregi og Svíþjóð eru vextir 1-4% að jafnaði. Miðað við stórgróða lánastofnana hér á landi á verðtryggðum lánum þá væri eðlilegt að miða við að Heimilislán bæru 2% vexti því öll önnur lán banka geta haldið áfram að vera verðtryggð eins og áður þar til betra jafnvægi kemst á.
(Heimilislán með 2% vöxtum til 25 ára gæti t.d. miðast við að vera að hámarki sama upphæð og meðaltalsverð á 2ja herb. íbúð á höfuðborgarsvæðinu sem er ca. 60 miljónir í dag. Af slíku láni væri afborgun nálægt 245 þúsund á mánuði. Augljóst að þá gætu bankar sparað sér greiðslumat. Síðan væri eðlilegt að Ríkisstjórn ásamt verkalýðsforingjum endurskoðuðu vexti á heimilislánum um leið og nýir kjarasamningar eru gerðir.
Í dag er staðan þannig að fjármagnseigendur kaupa 9 af hverjum 10 seldum íbúðum. Það segir sig því sjálft að það getur varla verið bönkunum ofraun að lána eitt heimilislán á móti 9 verðtryggðum íbúðalánum, þ.e. ef fjárfestar eru að taka íbúðalán. Bankar þyrftu auðvitað að breyta lánum þeirra viðskiptavina sinna sem eru með óhagkvæm íbúðalán á sinni einu eign sem þeir búa sannanlega í. Það mætti gefa bönkum 2 ár í að koma því í framkvæmd og þeir sem eru með hærri áhvílandi lán en hámarksheimilislán leyfa þurfa að setja umframlán yfir í veðtryggð lán.
Afleiðingar yrðu margvíslegar næði þessi einfalda lagasetning fram að ganga. Ungt fólk ætti auðveldara með að skilja árangurinn af því að spara. Kaupa litla íbúð til að byrja með svo ekki væri þörf á verðtryggðu láni með háum vöxtum.
Margir í leiguhúsnæði gætu keypt sér fyrstu eign og þar með losnaði mikið af leiguhúsnæði. Vel gæti farið svo að fjárfestar sem leigja út tugi eða hundruð íbúða sjái sig knúna til að lækka leigu eða selja eitthvað af íbúðum. Kannski gæti farið svo að fjárfestar skoði að fjárfesta í fyrirtækjum í stað þess að kaupa upp nánast allt íbúðarhúsnæði til að leigja út á okurleigu.
Eftirspurn eftir litlum íbúðum myndi aukast sem setti pressu á fjárfesta í byggingabransa að byggja meira af litlum íbúðum.
Það getur vel verið að lánastofnanir græði minna en er það ekki bara allt í lagi. Ungt fólk þarf þá ekki að flýja land vegna vaxtaokurs og ríki og sveitarfélög munu halda í fleiri framtíðarskattgreiðendur sem eignast börn á Íslandi og ala þau upp hér.
Það verður að koma böndum á lánastofnanir, ekki leyfa þeim að stunda mafíustarfsemi sem er landi og þjóð til skammar.
Að lokum; þá þarf að setja það í hendur háskóla landsins að hluti af verklegri kennslu nemenda í ýmsum greinum sem geta nýst á fjármálasviði sjái um að fara í eftirlitsferðir í lánastofnanir til að fylgja því eftir að lögum um rekstrarleyfi sé framfylgt.
Höfundur er fyrrum verðtryggingarþræll