Við höfum misst fókus á lykilþáttum á borð við skólamál, heilbrigðismál og ýmislegt sem tengist félagsmálum. Óboðlegt er að fársjúku fólki sé gert að bíða innan um annað þjáð fólk á þriðja heims gangi á bráðadeild í Fossvogi og hitta ekki lækni fyrr en eftir sjö klukkutíma. Okkur hefur farið aftur en ekki fram þegar að því kemur að taka á móti útlendingum sem flytja hingað. Engin markviss stefna er um að kenna innflytjendum íslensku og taka vel á móti því. Jakob Frímann Magnússon, þingmaður Flokks fólksins, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
„Það sem skiptir öllu máli er að fólki líði vel. Ef fólki líður illa yfir því að vita ekki hvernig endar nást saman um komandi mánaðamót þá veldur það andlegri vanlíðan, fjárhagslegri vanlíðan sem bitnar á …“
Þetta helst nefnilega allt í hendur …
„Helst allt í hendur, og ég held að það sé nefnilega forgangsmálið – ég held að allir viðurkenni að það sé forgangsmálið – en þegar menn eru búnir að hafa sjö ár til þess að stýra skútunni, þrátt fyrir öll áföllin – Covid var dýrt – jarðeldar á Reykjanesi voru dýrir – framlög okkar til átakasvæða, Úkraínu og að einhverju leyti Mið-austurlanda; sá aukni fólksfjöldi sem hingað hefur verið að koma. Þetta kostar,“ segir Jakob Frímann.
Hann segir það lítinn hluta þess fólksfjölda sem hingað hefur streymt sem komi frá stríðshrjáðum svæðum. „Stærsti hlutinn er bara þjónustufólk sem við gætum ekki lifað án. Samfélagsbreytingin sem hefur orðið á, hvað, þremur áratugum núna – við vorum 260 þúsund þegar ég var unglingur og nú erum við orðin 400 þúsund, þar af 80 þúsund útlendingar. Við fögnum fjölbreytileikanum og því að geta farið hér á alla flóruna í veitingahúsum og upplifað nýja strauma í tónlist og menningu og öllu því, en það þarf líka að gæta þess – og við höfum aðeins sofið á verðinum þar – að hjálpa þessu fólki að aðlagast Íslandi.“
Jakob Frímann segir mikilvægt að kenna innflytjendum markvisst íslensku. „Það var gert hér í gamla daga. Þá voru bara kúrsar fyrir fólk sem var að flytja til landsins með börnin sín og svona, það var bara markviss kennsla og markviss viðleitni. Það er hægt að segja að þetta hafi verið auðveldara þegar það var færra fólk, en ég veit ekki til þess að það sé nein markviss stefna eða starfsemi í gangi í dag.“
Hann segir að með þeirri miklu fólksfjölgun og breytingum sem orðið hafi á hagkerfinu höfum við misst aðeins fókus á lykilþáttum á borð við skólamál, heilbrigðismál og ýmsu sem tengist félagsmálum þannig að okkur hafi farið aftur en ekki fram. „Til dæmis, það að fá heimilislækni í dag er ekkert sjálfsagt mál eins og var. Ég var með grein um síðustu helgi um skjólstæðing og ættingja sem lenti í svakalegum hremmingum á bráðadeild í Fossvogi með blóðtappa, heilablóðfall og svakalegar hjartsláttartruflanir, stingandi höfuðverk. Það á ekki að geta gerst að slíku fólki sé haldið inn á einhvers konar þriðja heims gangi sem er löngu sprunginn, fullur af einhverjum bráðabirgðasjúkrarúmum með þjáðu fólki og þurfi að bíða í sjö tíma eftir að hitta lækni.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.