Tinna Brá Magnúsdóttir einn besti markvörður Bestu Deildar kvenna í sumar er gengin í raðir Vals. Tinna sem er fædd árið 2004 gerir 3 ára samning við félagið en hún kemur frá Fylki.
Fanney Inga Birkisdóttir sem hefur verið aðalmarkvörður Vals hefur verið seld til Hacken í Svíþjóð.
„Það er geggjað að vera búin að semja við Val sem er auðvitað eins og allir vita í fremstu röð þegar kemur að kvenna íþróttum. Maður finnur það þegar maður kemur að Hlíðarenda hversu mikill metnaður er í öllu hérna. Valur er frábært félag og hér ætla ég að vera. Ég hlakka sérstaklega til þess að vinna með Gísla markmannsþjálfara aftur, en við þekkjumst vel frá því ég var í Gróttu,“ segir Tinna Brá Magnúsdóttir nýr leikmaður Vals.
„Tinna sýndi það með frammistöðu sinni í sumar að hún er markvörður í fremstu röð. Hér í Val viljum við bjóða upp á alvöru metnað þegar kemur að því að hlúa að leikmönnum og gera þá enn betri. Tinna er þannig leikmaður og ég er ekki í vafa um að hún muni nýtast okkur frábærlega innan sem utan vallar,“ segir Björn Steinar Jónsson varaformaður knattspyrnudeildar Vals.