„Kæru vinir föstudagsfiðringurinn enn og aftur hjá okkur strákunum í GlacierGuys. Við höfum ákveðið að tilheyra daginn okkar ástkæru hljómsveit NýDönsk,“ segir Hannes Gústafsson.
Hann ásamt Friðriki Má Sigurðssyni og Theodóri Sigurbjörnssyni eru söngelskir dúkarar í Vestmannaeyjum, sem vinna við að dúka ásamt allri almennri gólfvinnu að sögn Friðriks Más; flotun, flísalagnir, teppalagnir og fleira hjá fyrirtækinu H Harði.
Þremenningarnir birtu fyrr í dag myndband þar sem þeir taka lag Nýdanskrar, Fullkomið farartæki.
„Þetta er fimmta lagið sem við gefum út á samfélagsmiðlum segir Friðrik Már í stuttu spjalli við DV. Aðspurður um hvort að kór eða annað slíkt fái að njóta sönghæfileika neitar hann.
„Nei nei ekkert þannig bara almenn vitleysa í okkur. Hafa gaman af lífinu.“
Í myndbandinu segir Hannes að þeim félögunum hafi ekkert litist á áhorfstölurnar hjá Nýdanskri.
„Þannig að við ætlum að vinda okkar kvæði í kross og tileinka lagið Nýdönskgæjanum sjálfum.“
Strákarnir þakka fyrir áhorfið og biður Hannes fólk um að fara í símana og kjósa strákana og gefa þeim góðar athugasemdir.
Myndbandið hefur fallið í kramið hjá áhorfendum sem vilja einhverjir sjá strákana í kór Landakirkju, á tónleikum eða í Eurovision. Einn leggur til að Nýdönsk hiti upp fyrir þá á tónleikum. Orðin meistarar, snillingar, geggjaðir fljúga í athugasemdum. Og svo fór að sjálf Nýdönsk rakst á myndbandið og deildi á Facebooksíðu sína með orðunum „Hér eru miklir meistarar á ferðinni!“
„Tilnefndir fyrir besta cover-flutninginn á næstu hlustendaverðlaunum,“ skrifar einn og nokkrir vilja vita hvar skyrturnar fást.
Þar á undan tóku strákarnir Man in the Mirror með Michael Jackson.