Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, telur kröftum sínum best varið í að vera áfram í borgarmálunum en hún segist tilbúin að bjóða sig fram til að vera varþingmaður Pírata í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu, í komandi alþingiskosningum. Hún gefur því kost á sér í 4-5. sæti á öðrum hvorum framboðslistanum í Reykjavík.
Í tilkynningu á Facebook-síðu sinni segir Alexandra meðal annars:
„Ég trúi á Pírata, ég held að við séum aflið sem Ísland þarf á að halda núna til þess að gera réttlátara samfélag þar sem öll geta tekið þátt. Ég vil leggja allt sem ég get af mörkum í þessari kosningabaráttu sem nú fer í hönd. Ég ætla þó ekki að fara úr borginni að svo stöddu. Við höfum nú þegar mjög öfluga sveit sem gefur kost á sér í efstu sæti og ég veit að við verðum ekki í neinum vandræðum með að manna bestu framboðslista Pírata sem völ er á með því góða fólki.“
Alexandra var kjörinn vararborgarfulltrúi 2018 en varð borgarfulltrúi 2021 og hefur meðal annars verið forseti borgarstjórnar og formaður umhverfis- og skipulagsráðs. Hún skrifar:
„Ég held að mínir kraftar nýtist best í því að halda áfram í borgarstjórn, en vil gefa Pírötum þann kost að geta kallað mig inn á þing í afleysingum, sérstaklega ef til umfjöllunar eru málefni sem varða mína reynslu og þekkingu.“