Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sækist eftir öðru sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í komandi þingkosningu, Helstu rökin sem hún hefur nefnt fyrir því að hún hyggst nú flytja sig úr sínu gamla kjördæmi, Norðvestur, eru að hún hafi búið í Kópavogi í tíu ár, fjölskyldan sé búin að koma sér vel fyrir þar og börnin eru þar í skóla.
Þingmenn úr landsbyggðakjördæmum fá greiddar húsnæðis- og dvalarkostnaðargreiðslur. Á vef Alþingis segir:
„Húsnæðis- og dvalarkostnaðargreiðslur eru ætlaðar þingmönnum utan Reykjavíkurkjördæma og Suðvesturkjördæmis til að standa undir húsnæðis- og dvalarkostnaði á höfuðborgarsvæðinu. Ef þingmaðurinn er með fasta búsetu á höfuðborgarsvæðinu er fjárhæðin ætluð til að standa undir sams konar kostnaði í kjördæmi þingmannsins.“
Þórdís Kolbrún heldur hins vegar ekki heimili bæði á höfuðborgarsvæðinu og í kjördæminu, hinum megin við Hvalfjarðargöngin. Hennar heimili er í Kópavogi, eins og hún hefur sjálf bent á.
Engu að síður hefur hún þegið mánaðarlegar greiðslur sem beinlínis eru ætlaðar þingmönnum sem hafa húsnæðis- og dvalarkostnað bæði á höfuðborgarsvæðinu og í landsbyggðarkjördæmi. Frá því að Þórdís Kolbrún tók sæti á Alþingi árið 2016 hefur hún þegið 13,8 milljónir í þessar greiðslur. Reiknað fram til verðlags í dag er þessi upphæð 17,1 milljón.
Þar sem þessar greiðslur eru til að standa undir kostnaði en ekki laun eru þær skattfrjálsar. Í ljósi þess að Þórdís Kolbrún býr í Kópavogi og heldur ekki annað heimili í Norðvesturkjördæmi líta húsnæðis- og dvalargreiðslur því út eins og skattfrjálsir dagpeningar í vasa hennar. Þessu til viðbótar er hún frá Akranesi, sem er rétt handan við Hvalfjarðargöngin. Þar búa fjölmargir sem sækja vinnu á höfuðborgarsvæðinu og í raun má líta svo á að Akranes sé fyrir löngu orðið hluti höfuðborgarsvæðisins þrátt fyrir að tæknilega tilheyri bærinn landsbyggðarkjördæmi.