Sparkspekingurinn og hlaðvarpsstjarnan Mikael Nikulásson var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í Íþróttavikunni þetta skiptið.
Sir Alex Ferguson var á dögunum leystur undan störfum sem sendiherra hjá Manchester United. Sir Jim Ratcliffe er að skera niður en Ferguson var með 2 milljónir punda í laun á ári.
„Ég held að það sé margt alvarlegra sem þarf að gera á Old Trafford en þetta. En ég skil það svosem að skera niður um þennan hálfa milljarð á ári. Þú þarft að bera virðingu fyrir peningunum,“ sagði Mikael.
Ferguson fær þá ekki að mæta í klefann á Old Trafford og það finnst Mikael slakt af félaginu.
„Hann á bara að fá að mæta þarna og gera það sem hann vill. Það þarf ekkert að borga honum fyrir það. Ef það á að borga honum 360 milljónir á ári þá þarf hann bara að koma og þjálfa liðið aftur. Árangurinn með hann 82 ára yrði miklu betri þarna en núna. Ég get lofað ykkur því.“
Umræðan í heild er í spilaranum.