Sparkspekingurinn og hlaðvarpsstjarnan Mikael Nikulásson var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í Íþróttavikunni þetta skiptið.
Árni Freyr Guðnason yfirgaf ÍR á dögunum og tók við Fylki. Bæði lið spila í Lengjudeild karla á næstu leiktíð. Þetta vakti mikla athygli en hann hafði nýverið skrifað undir nýjan samning við ÍR eftir að hafa komið liðinu í umspil um sæti í efstu deild í haust.
„Árni Freyr er toppmaður og góður þjálfari. En hann er að stinga alvöru menn í bakið, þeir eru brjálaðir. Þetta eru menn sem þú nennir ekki að hafa á bakinu, þó þeir séu bara á bak við tölvuskjáinn,“ sagði Mikael um málið, en stuðningsmenn ÍR eru margir hverjir brjálaðir út í Árna.
„Hann er nýbúinn að skrifa undir hjá ÍR og þetta er ekki Manchester United sem var að hringja, þetta er Fylkir í sömu deild. Ég skil hann alveg. Það eru margir um hituna þegar kemur að störfum í efstu tveimur deildunum. En það eru ekki svo rosalega mörg störf.“