fbpx
Föstudagur 18.október 2024
Fókus

Furðar sig á léttvægri umræðu um OCD: „Ég var sannfærð um að ég væri morðingi og barnaníðingur“

Fókus
Föstudaginn 18. október 2024 22:00

Bryony Gordon.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ef ég ætti eina krónu fyrir hvert skipti sem einhver segir mér að hann sé með „smá OCD“ þá væri ég rík kona. Elon Musk rík. Taylor Swift rík.“

Svona hefst athyglisverður pistill sem Bryony Gordon skrifar fyrir Daily Mail en tilefni hans er heldur léttvæg umræða oft á tíðum um áráttu- og þráhyggjuröskun (OCD).

Þeir sem eiga það til að vera mjög skipulagðir og vilja hafa hlutina á hreinu hafa nefnilega gjarnan á orði að þeir séu með OCD og brosa út í annað. En það er ekkert grín að vera með áráttu- og þráhyggjuröskun eins og þeir þekkja sem eru með alvarleg einkenni þessarar geðröskunar.

Kvíðinn verður hamlandi

Á vef Heilsuveru kemur fram að áráttu- og þráhyggjuröskun einkennist af endurteknum hugsunum eða ímyndum (þráhyggju) sem valda vanlíðan og endurtekinni hegðun (áráttu) sem ætlað er að minnka óþægindin eða fyrirbyggja skaða.

„Allir finna öðru hvoru fyrir kvíða og fá alls kyns hugsanir sem geta komið á óvart eða valdið skammtíma óþægindum. Yfirleitt líða slíkar hugsanir fljótt hjá og hafa lítil áhrif á líðan og hegðun. Ef kvíðinn er orðinn hamlandi til lengri tíma og farinn að hafa áhrif á lífsgæði og getu til að sinna eða njóta athafna daglegs lífs, getur verið að um sé að ræða áráttu-og þráhyggjuröskun,“ segir á vef Heilsuveru.

Móðgandi og ótrúlega villandi

Í pistli sínum bendir Bryony á að nú sé einskonar vitundarvika í Bretlandi um OCD og af því tilefni hafi hún viljað opna sig um eigin reynslu.

„Það kemur mér nefnilega sífellt á óvart hversu oft alvarlegur geðsjúkdómur (OCD) er notaður sem einhvers konar regnhífarheiti yfir þá sem eru skipulagðir eða formfastir. Það væri eins og lýsa einhverjum sem vill gjarnan vera með mörg járn í eldinum sem „örlitlum geðklofasjúklingi“ – ekki bara móðgandi heldur líka ótrúlega villandi.“

Bryony hefur verið með OCD síðan hún var barn og röskunin hefur litað líf hennar mikið.

„Hjá mér hefur OCD aldrei snúist um að vera brjálæðislega skipulögð – eiginmanni mínum til armæðu því hann grínast stundum með að hann vildi að ég væri með „góða OCD-ið“. Í sannleika sagt er ekki til nein góð tegund af OCD. Þetta er kallað áráttu- og þráhyggjuröskun af ástæðu því hún veldur þeim sem haldinn er henni mikilli vanlíðan.“

Þróaði með sér alkóhólisma

Í hennar tilfelli tók það mörg ár að uppgötva að hún væri með OCD og því leið langur tími þar til hún gat fengið viðeigandi meðferð við röskuninni. „Á þessum tíma leitaði ég í ýmis bjargráð til að mér liði betur,“ segir hún og bætir við að hún hafi þróað með sér áfengissýki með tímanum. „Það var ekkert krúttlegt eða fyndið við að vera með eitthvað meira en „bara smá OCD,“ segir hún.

Í pistlinum rifjar hún einnig upp reynslusögur um OCD-röskunina sína. „Dag einn þegar ég var 11 ára vaknaði ég einn morguninn sannfærð um að ég væri með alnæmi og ég myndi smita alla fjölskylduna mína. Þannig að ég þvoði hendurnar stanslaust, svaf með tannburstann undir koddanum mínum og fór með möntrur sem ég vonaðist til að myndu halda fjölskyldunni minni á lífi.

Á unglingsárunum byrjaði heilinn í mér að segja mér að ég hefði slasað einhvern alvarlega en ég væri búinn að gleyma því. Ég varð sannfærð um að ég væri smituð af einhverjum hræðilegum sjúkdómi og varð sannfærð um að ég væri morðingi og barnaníðingur.“

Sat tímunum saman við vöggu dóttur sinnar

Það var ekki fyrr en Bryony komst á fertugsaldur að hún fékk almennilega aðstoð. Það gerðist eftir að hún hafði eignast dóttur sína. Segist hún hafa haft stöðugar áhyggjur af því að hún myndi deyja. „Ég sat tímunum saman við vögguna hennar og horfði á brjóstkassann fara upp og niður á meðan ég endurtók möntrur um að ekkert kæmi fyrir hana.“

Bryony segir að blanda af samtalsmeðferð og lyfjagjöf hafi virkað vel og hún sé nú að mestu laus við áráttu- og þráhyggjuröskunina. „Það sem hefur hjálpað mér hvað mest er að tala um þetta opinberlega og hitta fólk sem þjáist af þessum ótrúlega misskilda sjúkdómi.“

Áhugasamir geta hlustað á hlaðvarp sem Bryony heldur úti, The Life of Bryony, en í síðustu þáttum sínum hefur hún opnað sig um baráttuna við OCD, eða áráttu- og þráhyggjuröskun eins og hún kallast á íslensku.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt