María Rut Kristinsdóttir, varaþingmaður Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, vill leiða flokkinn í Norðvesturkjördæmi í komandi kosningum. María Rut er frá Vestfjörðum.
„Það er mikið ábyrgðahlutverk að bjóða sig fram til starfa á Alþingi. Ég hef verið svo lánsöm að fá að taka sæti á þingi fyrir Viðreisn í þrígang. Þann tíma hef ég nýtt vel til að máta mig við hlutverkið, pontuna og finna það í hjartanu hvort þetta sé hlutverk sem ég er raunverulega reiðubúin að taka að mér. Alla leið,“ segir María Rut í færslu á samfélagsmiðlum í hádeginu í dag. „Ég var krakkinn sem fór heim í hádeginu og horfði á Alþingisrásina – ekki Nágranna eins og hinir krakkarnir. Sumt er kannski ekki umflúið. Eða skrifað í einhver ský.“
María Rut segir að henni langi mest af öllu til þess að verða þingmaður og hún telur að hún geti orðið góður þingmaður, með skýran áttavita og framtíðarsýn. Þingmaður sem stendur í lappirnar.
Ástæðan fyrir því að hún vill leiða í Norðvesturkjördæmi er vegna þess að það er hennar heimakjördæmi, sem hún brenni fyrir að sjá í blóma.
„Nú er uppstillingarnefnd að störfum og það verður spennandi að sjá hvað verður. Þetta er stuttur sprettur. Ég elska stutta spretti. En er líka fín í langhlaupum. En ég er tilbúin að reima á mig hlaupaskóna,“ segir María Rut. „Verði ég valin til að leiða lista Viðreisnar í NV-kjördæmi þá heiti ég því að ég mun hlaupa og hlaupa hratt. Í 45 daga spretti fyrir kosningar en fyrst og fremst fyrir fólkið í Norðvesturkjördæmi eftir kosningar verði ég kjörin á Alþingi. Ég finn gríðarlegan meðbyr með Viðreisn. Ég held að þjóðin sé reiðubúin til að skipta um kúrs. Með frjálslyndi, almannahagsmuni og mennsku að vopni.“