fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fréttir

Ofbeldismálið á Vopnafirði: Konan tjáir sig og fyrrverandi vinur mannsins lýsir skelfilegri árás – „Ég á kúbein“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 18. október 2024 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kona sem liggur á sjúkrahúsi eftir meinta árás og manndrápstilraun af hendi fyrrverandi sambýlismanns síns og barnsföður segir að mál hennar sé skólabókardæmi um nauðungarstjórnun sem lögregla kynnti í fræðslumyndbandi síðastliðið sumar.

Segist hún hafa varað lögreglu mörgum sinnum við þeirri hættu sem hún er í vegna framferðis fyrrverandi sambýlismanns hennar. Árásin var framin á miðvikudagskvöld á Vopnafirði en á sunnudag er maðurinn sagður hafa brotist inn til konunnar og reynt að nauðga henni. Eftir þá árás var henni meinað um nálgunarbann á manninn af hálfu sýslumanns.

Sjá einnig: Óhugnanlegt ofbeldismál skekur Vopnafjörð – „Hann segir að rifflinum sé miðað að húsinu hennar“

Í talskilaboðum frá konunni til vina sinna, sem DV hefur fengið leyfi til að birta, segir konan:

„Lögreglan gaf út rosaflott myndband um nauðungarstjórnun í júní á þessu ári og ég var búin að nefna við lögreglu að þetta væri ekkert annað. Og ef þú horfir á myndbandið þá er hann lengi búinn að vera á stigi 3 til 5 yfir á 6 þar til hann endar á stigi 8. Margar vísbendingar og maður er búinn að vara við mörgum sinnum, aftur og aftur, án þess að það væri nokkuð gert eða tekið alvarlega. Eins með það þegar ég er spurð í skýrslutöku á mánudegi, degi eftir tilraun til nauðgunar, hvort þetta séu ekki bara innantómar hótanir. Svo gerist þetta stuttu síðar. Þetta eru ekki bara innantómar hótanir, spurningin er bara hvenær svona hótun verður að veruleika.“

Konan kærði húsbrot mannsins og nauðgunartilraun sem átti sér stað á sunnudag. Á mánudag fór hún í skýrslutöku til lögreglu. Maðurinn er síðan sagður hafa reynt að ráða hana af dögum á miðvikudag og liggur hún á sjúkrahúsinu á Akureyri eftir þá árás. Manninum var sleppt úr haldi eftir yfirheyrslu lögreglunnar á Egilsstöðum og gengur hann núna laus á Vopnafirði.

„Það vill enginn þennan mann á Vopnafirði“

„Samfélagið liggur bara á hliðinni, skilst mér. Það vill enginn þennan mann á Vopnafirði og hafa ekki viljað lengi. Fólk hefur bara verið að bíða eftir þessu. Mín fjölskylda hefur legið á hliðinni og það er til leiðiskross merktur mér sem hann hefur útbúið til að hóta mér,“ segir vinur konunnar í viðtali við DV. Vininum er mikið niðri fyrir vegna viðbragða yfirvalda og kerfisins við meintu ofbeldi mannsins:

„Það sem stendur upp úr í mínum huga er ekki flókið: Það er hvað þetta blessaða kerfi okkar er bráðónýtt og handónýtt þegar kemur að svona hlutum. Hann reynir að nauðga henni á sunnudagskvöldið var. Hún var með krækju á símanum frá lögreglunni, en það virkaði ekkert af því, ég held að ég hafi verið 40 mínútum á undan lögreglunni þó að ég þyrfti að keyra 20 km leið heiman frá mér til hennar. Hann er bara hafður heima hjá sér um nóttina, fær bara að vera óáreittur þar. Bara á hæð ofan við bæinn hennar, þar sem er bein sjónlína að útidyrunum hennar.“

Vinurinn segir að konan hafi skilið hús sitt eftir ólæst, maðurinn hafi vaðið inn og rótað í öllu, meðal annars í ruslinu, þar sem hann hafi fundið þungunarpróf. Er hann reyndi að nauðga konunni öskraði hann á hana og spurði með ruddalegu orðfæri hverjum hún væri að sænga með og hver hefði keypt handa henni nærföt sem hann fann kassakvittun fyrir í sorpinu hjá henni.

Er ekki vopnaður

Vinur konunnar segir það ekki rétt sem kom fram í fyrri frétt DV, að maðurinn byggi yfir skotvopnum. Hann var áður vopnaður en öll vopn hafi verið tekin af honum í aðgerðum lögreglu og sérsveitar í fyrrahaust. Maðurinn lét hins vegar þau boð út ganga að hann væri með riffil miðaðan á hús konunnar, til að ógna og hóta.

„Ég hefði bara viljað sjá þennan mann innilokaðan á einhverri stofnun. Það er líka mjög athyglisvert í þessu ferli að það er heimilislæknir, afleysingalæknir á Vopnafirði, fyrrverandi geðlæknir á sjúkrahúsinu á Akureyri, sem í tvígang lætur frá sér fara að þessi maður sé í bata. Ég skil ekki í geðlækni að láta frá sér vottorð um slíkt til lögreglu eftir tíu mínútna spjall við mann sem talar bara um sitt ágæti og hvað allir séu vondir við hann.“

Vinurinn segir einnig að árásarmaðurinn hafi margsinnis hótað konunni á meðan hann sjálfur var í meðferð á Vogi og Vík. Þau hafi síðan skrifað SÁÁ bréf vegna þessa og spurt hvað væri í gangi hjá stofnuninni. „Það var hringt daginn eftir. Það var mjög vandræðalegt símtal.“

Vinurinn segir að barnaverndarfullrúi sé eini aðili af hálfu yfirvalda sem hafi staðið í lappirnar í þessu máli. „Hann var víst froðufellandi eftir að hún hafði talað við hann enda tók hún hann víst ekki neinum vettlingatökum.

Mér finnst líka með ólíkindum að lögreglan hafi spurt hana eftir nauðgunartilraunina á sunnudag hvort þetta væri ekki bara innantómar hótanir hjá honum. Það eru til tæplega 300 skjáskot í fórum lögreglunnar sem sýna fram á þetta andlega ofbeldi sem hann er búinn að beita hana. Daginn sem henni er synjað um nálgunarbannið þá reynir hann síðan að drepa hana – sama dag.“

Koma alls staðar að lokuðum dyrum

„Ég geri engan greinarmun á dómskerfi, lögreglu, SÁÁ, Bjarkarhlíð, Kvennaathvarfinu, eða hvað þetta heitir allt, konur í þessari stöðu hafa ekkert þangað að sækja. Því þar er enga vörn að finna, þar er bara hægt að tala, benda eitthvað út í loftið, það eru engar lausnir sem þessi samtök geta veitt. Ég talaði sjálfur við konu í Bjarkarhlíð í sumar, mjög gott spjall, hún sagði að þau hefðu aðgang að lögfræðingi og lögreglu og hún vildi heyra í henni. Ég veit ekki hvort hún náði nokkurn tíma sambandi við hana fyrir rest, en þetta var komið á þann stað að hún nennti ekki lengur að reyna að hringja. Það næst ekki í fólk, það er ekki hringt til baka og póstum er ekki svarað.“

Vinur konunnar segir ótrúlegt að maðurinn gangi laus og kerfið bregðist ekki betur við kærum á hendur honum miðað við feril hans. „Þetta er dæmdur kynferðisbrotamaður, fyrrverandi handrukkari, hann var handtekinn af sérsveitinni síðasta haust, af hverju er kerfið ekki skilvirkara?

„Hann réðst á mig í fyrrahaust“

„Hann réðst á mig í fyrrahaust,“ segir Vopnfirðingurinn Björgvin Agnar Hreinsson, fyrrverandi vinur mannsins, sem hefur reynt að koma honum til hjálpar.

„Málið er að hann var að vinna hér á verkstæði og var rekinn þaðan. Ég á hérna útgerðarhúsnæði á þremur hæðum og þegar fór að hausta sá ég aumur á honum og hleypti honum á miðhæðina til að vinna þar. Svo gerist það í haust að það er einhver krísa á milli þeirra hjóna, hún var flúin til foreldra sinna. Svo heyri ég í honum þegar hann er nýkominn frá Egilsstöðum, sagðist hafa farið þangað til að fá sér frískt loft og hreinsa hugann. Ég ræddi lengi við hann og hann segir það nánast beint út að hann ætli að stúta sér. Ég ræddi lengi við hann til að fá hann ofan af því og til að fá hann nær mér því það hafði myndast góður kunningsskapur á milli okkar, við báðir óvirkir alkar og með svipaðan bakgrunn í þeim efnum. En hann vildi ekkert við mig tala og enga hjálp fá, ekki eitt né neitt. Ég gat ekki farið að sofa með þessa vitneskju, ég er búinn að fá minn skerf í lífinu af sjálfsvígum, og set mig í samband við lögreglu. Þeir fara þangað uppeftir til hans, tveir strákar úr lögreglunni, og ætla að tala við hann en hann varð brjálaður við strákana og þeir forðuðu sér.“

Í kjölfar þessarar misheppnuðu lögregluheimsóknar var sérsveit ríkislögreglustjóra kölluð til. „Það var fengin sveit manna frá Egilsstöðum til að handtaka hann og hreinsa út vopnasafnið hans en hann átti töluvert magn af skotvopnum. Þetta var á miðvikudegi haustið 2023 en aðfaranótt fimmtudags keyra þeir hann aftur heim og þá byrjar hann að senda mér skilaboð á Messenger, eintóman óþverra, frá því um þrjúleytið um nóttina og til níu um morguninn. Þá sagði ég við hann að okkar viðskiptum væri lokið, ég vildi ekkert með hann hafa  og ég myndi skipta um sílinder á húsinu.

„Ég á kúbein,“ sagði hann í síðasta skeytinu til mín, og að ég skyldi ekki voga mér að leggja stein í götu hans.“

Maðurinn réðist síðan á Björgvin á föstudagsmorguninn. „Er ég fór niður fyrir húsið sé ég að búið er að mölva hurðina. Eins og asni fór ég upp og mætti honum í dyrunum. Þá réðst hann á mig af þvílíku offorsi, lamdi mig með öllu sem hönd á festi og var með borvél við það þegar komið var að okkur. Þá varð hann fyrir smá truflun svo ég gat skriðið burt út í bílinn minn og keyrt heim. Ég var með brotinn efri góm og skemmda öxl.“

Um þetta leyti var Björgvin að takast á við afleiðingar af skelfilegu slysi sem hann hafði lent í og leiddi til þess að núna er búið að nema af honum vinstri fótinn. „Fóturinn var mjög bæklaður svo ég gat ekkert staðið uppi í hárinu á honum. Hann sló mig ítrekað niður og sparkaði í mig, í hausinn og allan búkinn,“ segir Björgvin, en hann kærði árásina til lögreglu. Honum er ókunnugt með stöðu kærunnar í kerfinu en fær nánari upplýsingar um það í næstu viku.

„Það eru þrjár vikur síðan ég fór í axlaraðgerð út af þessari árás og ég hef verið alveg frá vinnu síðan þetta gerðist,“ segir hann.

Kannast ekki við neinar árásir

DV hafði samband við hinn meinta árásarmann og bað um að fá að heyra hans hlið á málinu. Hann kannaðist ekki við neina árás. Orðrétt sagði hann: „Ég er upptekinn. Ég kannast ekki við málið. Þú ert að hringja í vitlausan mann.“

Síðan lagði hann á.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Íslensk kona í haldi lögreglu á Tenerife eftir blóðuga árás – Gekk í skrokk á tengdamóður sinni og mágkonu

Íslensk kona í haldi lögreglu á Tenerife eftir blóðuga árás – Gekk í skrokk á tengdamóður sinni og mágkonu
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Stefán ekki sannfærður um lífsseiga kenningu og nefnir athyglisverð dæmi

Stefán ekki sannfærður um lífsseiga kenningu og nefnir athyglisverð dæmi
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Guðbrandur sér fyrir sér ríkisstjórn Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata

Guðbrandur sér fyrir sér ríkisstjórn Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Sérfræðingur segir að nýtt ofurvopn Pútíns neyði Vesturlönd til að taka afgerandi ákvörðun

Sérfræðingur segir að nýtt ofurvopn Pútíns neyði Vesturlönd til að taka afgerandi ákvörðun
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sif um kosningarnar – „Kysi ég Pírata gæti atkvæði mitt farið til spillis. En ég gæti þó allavega lifað með sjálfri mér.“

Sif um kosningarnar – „Kysi ég Pírata gæti atkvæði mitt farið til spillis. En ég gæti þó allavega lifað með sjálfri mér.“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Egill hefur efasemdir um skoðanakannanirnar – „Menn ættu að varast að draga of miklar ályktanir af þeim“

Egill hefur efasemdir um skoðanakannanirnar – „Menn ættu að varast að draga of miklar ályktanir af þeim“