Sinwar tók við sem stjórnmálaleiðtogi Hamas í ágúst síðastliðnum eftir að Ismail Haniyeh lést í loftárás sem gerð var í borginni Tehran í Íran í sumar. Sinwar er talinn hafa verið heilinn á bak við hryðjuverkaárásirnar í Ísrael þann 7. október í fyrra.
Ísraelsher birti myndbandið í gærkvöldi en á því má sjá dróna fljúga inn í gjörónýta byggingu og mæta þar Sinwar sem situr í stól, mikið slasaður og með andlit sitt hulið.
Hann heldur á einhvers konar priki í vinstri hönd og reynir að kasta því af veikum mætti í átt að drónanum en án árangurs. Örskömmu síðar vörpuðu ísraelskir hermenn sprengju á bygginguna með þeim afleiðingum að Sinwar lést.
Daniel Hagari, upplýsingafulltrúi ísraelska hersins, sagði á blaðamannafundi í gær að dróninn, sem meðfylgjandi myndband var tekið upp með, hafi komið auga á þrjá „hryðjuverkamenn“ Hamas-samtakanna en þeir hafi hlaupið á milli bygginga með ísraelska hermenn á hælunum.
Sagði hann að Sinwar hafi slasast á hægri handleggnum í skotbardaga við ísraelska hermenn. Bætti hann við að Ísraelsher hafi sprengt bygginguna og farið svo inn í rústirnar og fundið lík hans.
„Sinwar bar ábyrgð á hrottalegustu árás sem gerð hefur verið í Ísrael þegar hryðjuverkamenn réðust inn í Ísrael, slátruðu Ísraelsmönnum á heimilum þeirra, nauðguðu konunum okkar, brenndu heilu fjölskyldurnar lifandi og tóku yfir 250 karla, konur og börn í gíslingu,“ sagði Hagari.
„Síðastliðið ár hefur Sinwar reynt að flýja undan réttvísinni. Honum mistókst. Við sögðum að við myndum finna hann og það gerðum við,“ bætti hann við.