Pavel Ermolinski fyrrum þjálfari Tindastóls í körfubolta byrjaði á dögunum með nýtt hlaðvarp sem kallast Gazið. Þar fer hann um víðan völl.
Í nýjum þætti hjá sér ræðir hann draum sinn um úrslitakeppni í fótbolta.
Til að auglýsa þáttinn ákvað Pavel að falsa skilaboð og birta þau á X-inu og má segja að allt hafi farið á hliðina.
Pavel ákvað hins vegar að eyða skilaboðunum. Þar sagði hann áhrifamenn úr heimi fótboltans vera að hóta sér og múta sér til að setja þáttinn ekki í loftið.
„Ef þetta snýr að peningum þá hef ég umboð til að taka það samtal lengra,“ sagði í skilaboðunum.
Nokkru síðar ákvað hann að leiðrétta sig og eyddi skilaboðunum út. „Við skulum fyrirbyggja allan misskilning hérna. Þessi skilaboð voru ekki raunveruleg. Hélt að grínið væri augljóst. Það er enginn svona brjálaður yfir úrslitakeppni í fótbolta vona ég,“ skrifar Pavel svo.