fbpx
Sunnudagur 05.janúar 2025
Fókus

Ásdís verður níræð á næsta ári – „Þjónustan í heilbrigðiskerfinu hefur versnað“

Fókus
Fimmtudaginn 17. október 2024 14:30

Ásdís Karlsdóttir, fyrrverandi íþróttakennari á Akureyri. Mynd: Facebook-síða Akureyrarbæjar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á Facebook-síðu Akureyrarbæjar er rætt við Ásdísi Karlsdóttur fyrrverandi íþróttakennara sem fædd er 1935 og verður því 90 ára á næsta ári. Óhætt er að segja að Ásdís sé hreinskilin í spjallinu og hún fer yfir kost og löst á því að eldast og hvernig er að vera eldri borgari á Akureyri. Fer Ásdís, sem búið hefur mest alla ævina í bænum, til að mynda ekkert í grafgötur með að þjónusta heilbrigðiskerfisins hafi versnað frá því sem áður var sem sé slæmt fyrir konu á hennar aldri en að öðru leyti sé gott að vera eldri borgari á Akureyri.

Ásdís fæddist í gamla barnaskólanum á Akureyri. Hún fæddist í stofunni fyrir neðan stofu Davíðs Stefánssonar, skálds og bókavarðar, þar sem Amtsbókasafnið var til húsa í þá daga. Faðir hennar fékk húsvarðastöðu í skólanum og þá vænkaðist hagur foreldra Ásdísar og þeim tókst að vinna sig upp úr fátækt. Í kjölfarið fékk faðir hennar viðurnefni sem fór einnig yfir á Ásdísi:

„„Pabbi fékk vinnustofu þar sem hann smíðaði aðallega rokka og því festist við hann nafnið Kalli Rokk. Ég var eina systkinið sem fékk á mig Rokk-nafnið, sem mér fannst alveg hræðilegt þegar ég var lítil. Fólk þekkir mig enn sem Dísu Kalla Rokk.““

Versnandi heilbrigðisþjónusta

Í færslunni er síðan vikið að því hvernig er að vera eldri borgari á Akureyri og ástandi heilbrigðiskerfisins eins og það blasir við Ásdísi:

„Ásdís segir Akureyri hafa breyst mikið í gegnum tíðina. „Þjónustan í heilbrigðiskerfinu hefur versnað. Í gamla daga leit heimilislæknir við hjá fólki en núna fær maður ekki einu sinni símatíma. Það er skelfilegt fyrir gamla konu,“ segir hún en bætir við að að öðru leyti sé gott að vera eldri borgari hér í bæ.“

Ásdís hefur aldrei lært á bíl en hefur þess í stað einkum farið ferða sinna gangandi eða hjólandi. Í dag notast hún þó aðallega við rafskutlu sem hún erfði eftir eiginmann sinn.

Hún býr í dag í Víðilundi þar sem eru íbúðir ætlaðar eldri borgurum. Hún segir húsnæðið ekki gallalaust en að öðru leyti sé gott að búa þar:

„„Hér er dásamlegt að vera, ef ég horfi fram hjá skítugum gluggum og ljótu parketi. Hér eru allir vingjarnlegir og engum þarf að leiðast. Niðri er boðið upp á mat og allskonar námskeið.““

Að verða gömul

Eins og áður segir verður Ásdís níræð á næsta ári. Hún hefur bersýnilega blendar tilfinningar í garð þessara tímamóta og segir ekki standa til að halda veislu:

„„Það er svo hryllilegt að verða svona gömul. Ekki misskilja mig, ég er þakklát fyrir að lifa, en það er allt orðið svo erfitt. Maður er í 100% vinnu við að hugsa um sig. Það er töluverð líkamsrækt en ég passa samt að eiga alltaf tíma til að leika mér. Ég reyni að vera eins sjálfbjarga og ég get og ég er heppin með mitt bakland. Það eru ekki allir sem eiga fimm af sex börnum sínum í nágrenninu.““

Ásdís segist ekki vera hrædd við að deyja en hræðist miklu meira að enda á hjúkrunarheimili eins og þau séu orðin í dag.

Eins og áður segir var Ásdís íþróttakennari. Hún leggur mikla áherslu á mikilvægi hreyfingar ekki síst fyrir eldra fólk. Hún segir að þrátt fyrir að vera haldin mikilli slitgigt þurfi hún ekki á lyfjum að halda þar sem hún hreyfi sig að lágmarki fjórum sinnum í viku.

Lífsgleði

Þótt Ásdís sé afar hreinskilin og sé ekkert að fela gallana við að eldast þá er alveg ljóst af færslunni að hún er afar lífsglöð og kát. Hún segist afar heppin með að hafa verið endurlífguð eftir hjartastopp fyrir sex árum:

„„Ég er ung í anda og kannski er ég barnaleg og skrítin en mér er alveg sama. Mitt mottó er að láta mér líða vel, hafa hreina samvisku og líta á björtu hliðarnar í lífinu.““

Af athugasemdum við færsluna má ráða að Ásdís nýtur mikillar virðingar á Akureyri:

„Flott kona með gott hugarfar.“

„Dísa leikfimikennari er einstök kona.“

Þessa skemmtilegu færslu Akureyrarbæjar með spjallinu við Ásdísi má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Ellý brugðið þegar hún spáði fyrir þátttöku Íslands í Eurovision – „Þetta finnst mér sérstakt“

Ellý brugðið þegar hún spáði fyrir þátttöku Íslands í Eurovision – „Þetta finnst mér sérstakt“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Loksins skilin eftir 8 ára hatrammar deilur – Deilur um víngerð halda áfram

Loksins skilin eftir 8 ára hatrammar deilur – Deilur um víngerð halda áfram