Um verður að ræða hefndaraðgerðir fyrir loftárásir Írana á Ísrael þann 1. október síðastliðinn þegar eldflaugum var skotið að Tel Avív og Jerúsalem. Með árásunum vildu Íranar hefna fyrir dauða Hassan Nasrallah, leiðtoga Hezbollah-samtakanna.
Ísraelsmenn hafa heitið hefndum en einhverjir hafa klórað sér í kollinum yfir því hversu langan tíma Ísraelsher hefur tekið í að bregðast við.
CNN greinir frá því og hefur eftir heimildarmönnum sínum að Ísraelsmenn séu með árás í undirbúningi og hún verði gerð á næstu dögum eða vikum. Heimildir Washington Post herma það sama.
Óvissa ríkir þó um það hvernig hún fer fram, en þó er talið víst að Ísraelsmenn muni ekki ráðast á þjóðhagslega mikilvæga innviði í Íran eins og olíubirgðastöðvar.
Heimildarmaður CNN segir að mikið hafi verið rætt um málið í ríkisstjórn Ísraels þar sem einhverjir ráðamenn hafa viljað láta til skarar skríða fyrr. Ef Ísraelsmenn bíði lengur geti óvinir landsins litið á það sem veikleika. Sami heimildarmaður segir að hefndaraðgerðir Ísraelsmanna verði ekki bundnar við eina árás heldur frekar einhvers konar röð aðgerða.
Fyrr í þessari viku fullvissuðu ísraelskir embættismenn kollega sína í Bandaríkjunum að ekki ráðist á kjarnorku- eða olíuinnviði í Íran. Höfðu Bandaríkjamenn áhyggjur af því að slíkar aðgerðir gætu leitt til allsherjarstríðs í Mið-Austurlöndum og bandarísk stjórnvöld myndu ekki verja slíkar hefndaraðgerðir.
Kosningarnar í Bandaríkjunum fara fram þann 5. nóvember næstkomandi sem fyrr segir, en stjórnmálaskýrendur eru á því að þróun mála í Mið-Austurlöndum í aðdraganda kosninga geti haft talsverð áhrif á niðurstöður kosninganna.