Ekki eru allir sáttir við þetta og eru íbúar á sumum stöðum reiðir vegna þess að nú geta dæmdir ofbeldismenn og morðingjar gengið óáreittir um göturnar.
Í frétt V1.ru, sem Daily Star vitnar til, kemur fram að einn þessara manna sé Dmitry Malyshev sem er fluttur aftur heim í þorpið Rakhinsky í Volgograd. Árið 2014 var hann dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir að myrða vin sinn, elda líkamsleifar hans og borða þær. Allt þetta sýndi hann svo í beinni útsendingu á samfélagsmiðlum.
Annar ofbeldismaður, Alexander Maslennikov, var dæmdur í 23 ára fangelsi fyrir hrottafengin morð á tveimur stúlkum í Volzhsky árið 2017. Eins og Dmitry hefur Alexander lokið eins árs herþjónustu sinni og er því frjáls maður í dag.
Fleiri eru taldir upp í upptalningu V1.ru. Þar á meðal er Nikolai Ogolobya sem var dæmdur í 20 ára fangelsi árið 2010 fyrir morð og mannát. Hann sneri nýlega aftur í heimahaga sína í Yaroslavl. Þá er Denis Gorin frjáls eftir að hann var dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir nokkur morð og mannát árið 2003. Þremur árum eftir að honum var sleppt myrti hann aftur og var dæmdur í 23 ára fangelsi. Eftir aðeins nokkurra ára afplánun fékk hann að ganga í herinn til að berjast í Úkraínu og er hann nú frjáls.
Rússneskir fjölmiðlar segja að talsverð ólga og óánægja ríki meðal íbúa á svæðum þar sem morðingjarnir eru nú búsettir á.