Ef þú átt eftir að horfa á þættina og þekkir ekki forsöguna skaltu láta staðar numið við lestur þessarar greinar.
Serían fjallar um morð Menedez-bræðranna Lyle og Eriks á foreldrum sínum, José og Mary Louise Menendez, árið 1989. Þeir játuðu að hafa banað þeim en deilt var um það hvort bræðurnir hefðu sætt skelfilegri kynferðislegri misnotkun af hálfu föður síns, José, áður en þeir létu til skarar skríða.
Vildu þeir einnig meina að móðir þeirra hefði tekið þátt í ofbeldinu og setið hjá á meðan faðir þeirra kvaldi þá. Fór að lokum svo að bræðurnir voru dæmdir í lífstíðarfangelsi árið 1996 og sitja þeir enn á bak við lás og slá þar sem vafi þótti ríkja um hvort þeir hefðu raunverulega verið fórnarlömb kynferðisofbeldis eða hvort græðgi þeirra í peninga og lúxuslíf hafi ráðið för.
Nú eru komin fram ný gögn sem Menedez-bræðurnir og lögfræðingar þeirra vona að verði til þess að þeim verði sleppt úr fangelsi. Um er að ræða handskrifað bréf sem Erik skrifaði frænda sínum, Andy Cano, átta mánuðum áður en José og Mary voru myrt.
Í bréfinu lýsir Erik áralöngu ofbeldi sem hann segir þá bræður hafa orðið fyrir af hendi föður síns. Í því segir meðal annars:
„Ég hef reynt að forðast pabba. Þetta er enn að gerast Andy en þetta er orðið verra fyrir mig núna. Ég get ekki útskýrt þetta, hann er orðinn allt of þungur og ég þoli hreinlega ekki að sjá hann. Ég veit aldrei hvenær þetta mun gerast og það gerir mig brjálaðan.“
Vilja stuðningsmenn bræðranna meina að þarna hafi Erik verið að lýsa því ofbeldi sem faðir þeirra beitti þá bræður en átti erfitt með að koma í orð.
Alveg frá því að bræðurnir fóru fyrir dóm hafa þeir játað morðin en talað að um sjálfsvörn hefði verið að ræða eftir ítrekað og áralangt ofbeldi. Saksóknarar héldu því fram við réttarhöldin á sínum tíma að ekkert kynferðisofbeldi hefði átt sér stað.
Fox News birti bréfið í heild sinni og í því segir Erik enn fremur að hann vaki oft langt fram eftir á kvöldin þar sem hann bíður eftir að faðir hans komi inn í herbergið. „Ég þarf að hætta að hugsa um þetta. Ég veit hvað þú sagðir áður en ég er hræddur. Þú þekkir ekki pabba, hann er brjálaður,“ sagði Erik sem var á átjánda aldursári þegar umrætt bréf var skrifað. „Hann hefur varað mig hundrað sinnum við því að segja einhverjum. Sérstaklega Lyle.“
Andy Cano, frændi þeirra bræðra, lést árið 2001 en hann lýsti því við réttarhöldin að Erik hefði sagt honum frá kynferðislegri misnotkun þegar hann var 13 ára. Ekki var þó minnst á bréfið. Móðir hans er sögð hafa fundið umrætt bréf fyrir níu árum síðan, löngu eftir að dómur féll á sínum tíma.
Cliff Gardner, lögfræðingur þeirra bræðra, segir engan vafa leika á því að hefði bréfið komið fyrir sjónir kviðdóms í réttarhöldunum 1996 væri alls óvíst hvort þeir hefðu hlotið jafn þungan dóm og raun bar vitni. „Bræðurnir hafa setið í fangelsi í 30 ár. Það er nóg,“ segir hann.
Í umfjöllun Daily Mail kemur fram að bræðurnir séu vongóðir um að saksóknaraembættið taki til greina að skoða bréfið og mæla með því að dómurinn yfir þeim verði styttur að því marki að þeir gætu brátt um frjálst höfuð strokið.