fbpx
Miðvikudagur 16.október 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Svandís málar sig og flokkinn út í horn – afleikur aldarinnar

Eyjan
Miðvikudaginn 16. október 2024 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðið á götunni er að eftir að hafa stýrt Vinstri grænum í rúma viku sem formaður hafi Svandís Svavarsdóttir afrekað það að mála sig og flokkinn út í horn í íslenskum stjórnmálum. Pólitískur afleikur aldarinnar að margra mati.

Svandís hóf formannsferil sinn með hótunum gagnvart samstarfsflokkunum í ríkisstjórn til sjö ára og lét setja inn í ályktun flokksþings Vinstri grænna óvægna gagnrýni og nánast svívirðingar um Sjálfstæðisflokkinn og formann hans. Orðið á götunni er að hún hafi greinilega hugsað sér að stíga inn á sviðið á formannsferli sínum sem galvaskur töffari. Vafalaust hefur hún gert ráð fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn léti framkomu hennar yfir sig ganga eins og svo margt annað í tíð þessarar ríkisstjórnar. Framkoma hennar var hins vegar svo óhefluð, vanhugsuð og yfirgengileg að Bjarna Benediktssyni, forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, var nóg boðið og sagði hingað og ekki lengra. Það hefur haft afleiðingar.

Á eftirminnilegum blaðamannafundi síðdegis á sunnudag birtist Bjarni þjóðinni í beinni útsendingu fjölmiðla og batt enda á þá vinstri stjórn sem starfað hefur í 7 ár, lengst af undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur og svo hans frá síðasta vori. Forsætisráðherra kom fram af öryggi og festu, flutti stutta og hnitmiðaða ræðu og svaraði spurningum fréttamanna fumlaust. Með þessu hrifsaði hann til sín frumkvæðið varðandi endalok vinstri stjórnarinnar sem Svandís hafði hugsað sér að hafa í sínum höndum. Við það missti formaður Vinstri grænna alla yfirvegun og sýndi augljós veikleikamerki þegar RÚV ræddi við hana skömmu eftir fund Bjarna. Í svekkelsi sínu hóf hún að væna formann Sjálfstæðisflokksins um óheilindi.

Orðið á götunni er að það sé býsna vel í lagt hjá Svandísi Svavarsdóttir að tala um óheilindi annarra í ljósi þess hvernig hún hefur leyft sér að koma fram sem stjórnmálamaður – bæði fyrr og síðar. Nefna megi að hún var dæmd í Hæstarétti fyrir valdníðslu þegar hún gegndi embætti umhverfisráðherra í vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og nærtækt sé að minna á framkomu hennar í hvalveiðimálum árið 2023 þegar hún braut meðalhófsreglur og sýndi einstakan tuddaskap gagnvart atvinnufyrirtæki og starfsmönnum þess. Nú sé hún svo ósvífin að væna Bjarna Benediktsson um óheilindi þegar hann gerði hið sjálfsagða að binda endi á vonlausa ríkisstjórn sem starfað hefur lifandi dauð um hríð, ekki síst vegna hótana Vinstri grænna.

Orðið á götunni er að marga hafi rekið í rogastans þegar hún hélt því fram í þætti RÚV, Silfrinu, á mánudag að unnt væri að stilla upp einhvers konar bráðabirgðastjórn sem hefði það markmið eitt að sniðganga Sjálfstæðisflokkinn. Fram kom í þættinum að þessi reyndi stjórnmálamaður virðist ekki kunna skil ágrundvallarhugtökum eins og starfsstjórn. Þetta var rekið ofan í hana og í reiði sinni lýsti hún því yfir að Vinstri græn myndu ekki taka sæti í starfsstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Þar með málaði hún sig og flokk sinn út í horn. Öllum mátti vera ljóst að forseti Íslands myndi samþykkja lausnarbeiðni forsætisráðherra fyrir alla ríkisstjórnina og fela honum að leiða starfsstjórn. Það gekk eftir.

Starfsstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar mun nú stjórna landinu fram að kosningum en án Vinstri grænna sem eru komnir í opinbera fýlu, engum til gremju nema þeim sjálfum.

Orðið á götunni er að þetta hefði aldrei gerst ef Katrín Jakobsdóttir hefði enn haldið um taumana sem formaður Vinstri grænna. Hún hafði sem forsætisráðherra til að bera þá yfirvegun sem þurfti til að stjórna flokki og ríkisstjórn. Ekki hafi þurfti nema rúma viku til að fá staðfest að Svandís Svavarsdóttir getur ekki stýrt Vinstri grænum vegna skorts á yfirvegun. Eftir að forseti kvað upp úrskurð sinn beið Svandísar og hinna ráðherra Vinstri grænna ekkert annað en að rýma ráðherraskrifstofur sínar og pakka sínu niður í pappakassa eins og sýnt var í sjónvarpsfréttum. Dapurlegt hlutskipti, þótt verðskuldað væri, og ótrúlegur afleikur.

Víst er að Halla Tómasdóttir, nýkjörinn forseti Íslands, stóðst fyrsta stóra prófið í embætti með sóma. Orðið á götunni er að staða Katrínar Jakobsdóttur hefði verið hrikalega erfið og snúin ef hún hefði verið kjörin forseti og þurft að taka ákvarðanir eftir að vinkona hennar og formaður Vinstri grænna hafði teflt sér og Vinstri grænum fram með þeim vanhugsaða hætti sem raun varð á. Kjósendur tóku þann kaleik frá Katrínu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Björn Jón skrifar – Að hætta tilgangslausu streði

Björn Jón skrifar – Að hætta tilgangslausu streði
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Áslaug Arna lét Gallup kanna stöðuna varðandi formennsku í flokknum

Orðið á götunni: Áslaug Arna lét Gallup kanna stöðuna varðandi formennsku í flokknum