Þingrof verður tilkynnt á Alþingi þann 17. október og gengið verður til kosninga þann 30. nóvember. Ríkisstjórnin mun sitja áfram til bráðabirgða sem starfsstjórn. Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, tilkynnti þetta rétt í þessu.„Heillavænlegast fyrir þing og þjóð að gengið verði til kosninga“
Hún segir að frumskylda sín sem forseta sé að tryggja að í landinu sé starfshæf stjórn og hefur hún því beðið þá ríkisstjórn, sem beðist hefur lausnar, að sitja áfram sem starfsstjórn til bráðabirgða. Í því felst að ríkisstjórnin muni gegna þeim störfum sem þykja nauðsynleg við daglega stjórn landsins. Þingmenn munu halda umboði sínu fram til kjördags og geta því lokið mikilvægum málum sem fyrir þinginu liggja.
Halla nýtti tækifærið og hvatti landsmenn til að vanda sig í því samtali sem framundan er í kosningabaráttunni. Hún neitaði að taka við spurningum frá fjölmiðlum enda sé kosningabaráttan hafin og vill hún leyfa því lýðræðislega ferli fram að ganga án sinna afskipta.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, segist ekki viss um hvort Vinstri Græn verði við beiðni um að taka þátt í starfsstjórn, en segir þó að honum þætti undarlegt ef flokkurinn víkur sér undan því kalli. Mikið þurfi til að ráðherrar hafni því að sitja áfram í embætti sínu fram að kosningum. Bjarni tók fram að best væri ef fjárlög verði samþykkt fyrir kjördag því annað væri til þess fallið að skapa óvissu.
Rétt eftir klukkan fimm birti Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri Grænna yfirlýsingu þar sem segir að flokkur hennar taki ekki þátt í starfsstjórn:
„Forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, hefur beðist lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Því liggur fyrir að ríkisstjórnin hefur lokið erindi sínu. Samtöl leiddu ekki til annarrar lausnar á þeirri stöðu sem upp er komin og það er niðurstaða þingflokks VG að taka ekki þátt í starfsstjórn undir þessum kringumstæðum. Ráðherrar VG verða frá og með morgundeginum almennir þingmenn og munu nálgast þau brýnu mál sem nauðsynlegt er að ljúka á Alþingi af ábyrgð og skyldurækni. Ég hef fulla trú á þinginu, það hefur áður tekist á við flókna stöðu.
Næsta skref eru kosningar, 30. nóvember, að loknu samtali við kjósendur um land allt um framtíðina og sýnina fyrir Ísland. Ákall almennings eftir lausnum, vegna verðbólgu og vaxta, í efnahagsmálum, húsnæðismálum, í almannaþjónustu og fleiri mikilvægum málaflokkum heyrist skýrt. Við í VG teljum að það sé enginn lausn önnur en öflug félagshyggja, ekki séu aðrar leiðir færar til þess að takast á við raunverulegar áskoranir samtímans. Í anda félagslegs réttlætis, femínisma, friðar og grænna stjórnmála höldum við á fund kjósenda.
Erindi VG er skýrt, við munum gera okkar til þess að vinstrið eigi öfluga rödd á Alþingi Íslendinga fáum við til þess umboð. Ég hlakka til! Sjáumst þarna úti.
Á sama tíma og Svandís birti yfirlýsinguna lýsti Bjarni því yfir í samtali við fjölmiðla að hann teldi ólíklegt að sitjandi ráðherrar segðu af sér. „En það kæmi mér verulega á óvart ef ráðherrar sem hafa jú ríkum skyldum að gegna verða ekki við beiðni að sitja í starfsstjórn. Það þætti mér afar sérstök niðurstaða hjá viðkomandi ráðherrum.“
Fréttin hefur verið uppfærð