Ester Sveinbjarnardóttir viðskiptafræðingur, leikkona og miðill, var aðeins 26 ára gömul þegar eiginmaður hennar lést af slysförum. Hann lést á mánudegi og þremur dögum síðar fæddi hún annað barn þeirra.
Eiginmaður Esterar starfaði hjá Hagvirkja og hafði verið að setja valtara á tengivagn. Það var snjór og hálka og tengivagninum hvolfdi og eiginmaður hennar varð undir og lést. „Þá þurfti ég að takast á við að vera búin að missa hann en hann var samt alltaf í kringum mig,“ segir Ester í viðtali við Sigurlaugu M. Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1.
Hún segist frá barnæsku hafa haft miðilshæfileika og séð þá sem horfnir eru úr þessu jarðlífi. Fyrir fjórum árum fór hún að starfa hjá Sálarrannsóknarfélagi Íslands og hefur síðan tekið að sér miðilsstörf. Ester stofnaði einnig Miðlun að handan sem eru óhagnaðardrifin félagssamtök. Samtökin veita aðstoð við miðlun en eru líka fengin á mannamót til að stýra hópefli í fyrirtækjum og blanda saman miðlun, heilun og spá fyrir hópa.
Eiginmaðurinn lést á mánudegi en fimmtudagskvöldið á eftir eignaðist Ester seinni son þeirra. „Þetta var mikil glíma á milli heima, hann var að koma og fylgjast með okkur og láta vita þegar eitthvað var að gerast. Þetta var mjög skrýtið átak að takast á við sorgina,“ segir Ester.
Foreldrar hennar gripu hana í sorginni og bróðir hennar skipulagði athafnir, annar bróðir hennar bakaði flatkökur sem hún gat boðið þeim sem komu í heimsókn að votta samúð sína.
Ester segist hafa vitað að hún myndi finna ástina að nýju, en ástin myndi ekki banka upp á fyrr en hún hefði keypt sér húsnæði. Daginn sem hún skrifaði undir kaupsamning á íbúð í raðhúsi fór hún á ball og hitti manninn sem er maðurinn hennar í dag. „Það var alveg yndislegt að finna einhvern til að ganga með veginn.“
Hlusta má á viðtalið við Ester í heild sinni hér.