fbpx
Þriðjudagur 15.október 2024
Fréttir

Áströlsk kona sakaði íslenskan leiðsögumann um að hafa eytt fjárfestingu hennar í sjálfan sig

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 15. október 2024 13:30

Héraðsdómur Reykjaness.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vinskapur ástralskrar konu og íslensks leiðsögumanns súrnaði verulega eftir að konan taldi manninn hafa svikið sig í viðskiptum. Kærði hún hann til lögreglu fyrir fjársvik. Dómur var kveðinn upp í málinu í Héraðsdómi Reykjaness þann 11. október.

Í ákæru Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu gegn manninum er hann sakaður um fjársvik, fyrir að hafa á árunum 2016 og 2017 blekkt konuna til að afhenda sér rúmlega þrjár milljónir króna, eða 36 þúsund ástralska dollara, og talið henni trú um að fjármunirnir yrðu nýttir í að stofna félag um ferðaþjónustufyrirtæki, líkt og þau höfðu sammælst um, en ákærði hafi ekki stofnað félagið heldur nýtt fjármunina sem hann fékk greidda frá konunni í eigin þágu.

Ómar Valdimarsson kærði málið til lögreglu fyrir hönd konunnar en rannsókn lögreglu á málinu hófst árið 2020. Í texta dómsins er rakið að fólkið hafði kynnst í fimmtu Íslandsferð áströlsku konunnar en hinn ákærði var þá leiðsögumaður hennar. Vinskapur þeirra þróaðist áfram í rafrænu skilaboðaspjalli eftir að konan var farin heim og sammæltust þau um að stofna saman ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi.

Ekkert varð af stofnun félagsins. Maðurinn segir að ástæðan hafi verið sú að konan reiddi ekki fram nauðsynleg gögn, þar á meðal íslenska kennitölu. Neitaði hann öllum ávirðingum um svik. Peningarnir sem konan lagði inn hjá manninum fóru í bílakaup og viðgerðir:

„Ákærði kvað umræddar fjárhæðir ekki lengur liggja á reikningum hans. Hann hafi fest kaup á húsbíl að andvirði 1.400.000 krónur þar sem hann hafi verið húsnæðislaus. Húsbíllinn hafi síðar „verið dreginn burt af Vöku“ og síðar verið seldur til uppgreiðslu á uppsöfnuðum vörslugjöldum. Þá kvaðst ákærði hafa keypt jeppa fyrir 250.000 krónur, en hann hafi þó aldrei verið gangfær. Aðspurður um eftirstöðvar fjárins vísaði ákærði til heimasíðu og Facebook-síðu sem hann hefði útbúið, en verðmæti hennar teldi hann nema um 800.000 krónum. Umræddir fjármunir hafi því verið ætlaðir til greiðslu á hlutdeild einkaréttarkröfuhafa í síðunum, sem hafi numið 400.000 krónum. Kvaðst ákærði hafa keypt þjónustu erlendis frá til uppsetningar á síðunni. Það hafi þó ekki verið kostnaðarsamt. Þá hafi hluti fjármunanna farið í „neyslu og viðgerðir“.“

Það var sameiginleg ákvörðun fólksins að kaupa umræddan húsbíl og átti að nýta hann í rekstur fyrirtækisins auk þess sem maðurinn átti að búa í honum. Konan segist hins vegar ekki hafa haft vitneskju um kaup leiðsögumannsins á tveimur öðrum bílum. En samkvæmt afritum af rafrænum samskiptum fólksins mátti henni vera kunnugt um þessa ráðstöfun auk þess sem henni átti að vera fullkunnugt um bága fjárhagsstöðu mannsins, segir í niðurstöðu dómsins.

Það er niðurstaða dómsins að hér hafi ekki verið um fjársvik að ræða heldur viðskiptaáform sem fóru út um þúfur. Í niðurstöðunni segir:

„Í ljósi gagna máls og framburðar ákærða og einkaréttarkröfuhafa verður ekki ráðið að ákærði hafi blekkt einkaréttarkröfuhafa til að leggja til þá fjármuni sem mál þetta lýtur að. Það eitt að ekki hafi reynst unnt að stofna einkahlutafélag um samstarf þeirra tveggja, líkt og til hafi staðið, leiðir ekki eitt og sér til þess að ákærði geti talist hafa gerst sekur um brot á 248. gr. almennra hegningarlaga. Er það mat dómsins að mun fremur hafi verið um að ræða viðskiptasamstarf, sem ætla má að hafi í öndverðu byggst á vináttu og trausti, en hafi ekki raungerst af ástæðum sem ákærða verður ekki einum um kennt. Það eitt að af samstarfi þeirra hafi ekki orðið, líkt og lagt var upp með, verður ekki metið ákærða til sakar.“

Maðurinn var sýknaður af ákæru um fjársvik og einkaréttarkröfum áströlsku konunnar á hendur honum var vísað frá.

Dóminn má lesa hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Skatturinn kyrrsetti eignir manns sem fékk tæplega 220 milljónir inn á reikninginn sinn

Skatturinn kyrrsetti eignir manns sem fékk tæplega 220 milljónir inn á reikninginn sinn
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Áhrifavaldur klifraði brú til að taka upp myndband en hrapaði til dauða – Vinur hans horfði á stjarfur

Áhrifavaldur klifraði brú til að taka upp myndband en hrapaði til dauða – Vinur hans horfði á stjarfur
Fréttir
Í gær

Hryllileg aftaka skekur gríska paradísareyju

Hryllileg aftaka skekur gríska paradísareyju
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Svandís: „Þetta kom mér á óvart“

Svandís: „Þetta kom mér á óvart“