fbpx
Miðvikudagur 16.október 2024
433Sport

Utan vallar: Latur Norðmaður sem ætti að víkja fyrir augljósum kosti

Hörður Snævar Jónsson
Þriðjudaginn 15. október 2024 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Utan vallar er skoðunarpistill höfundar:

Það er ljóst að stjórn KSÍ mun þurfa að taka ákvörðun í næsta mánuði hvort segja eigi upp samningi Age Hareide eða ekki, ákvæði er í samningi sambandsins sem gefur því færi á að láta Norðmanninn fara.

Öllu hugsandi fólki fer að verða það ljóst að innkoma Hareide hefur litlu skilað, honum hefur ekki tekist að bæta liðið mikið frá því að hann tók við af Arnari Viðarssyni fyrir 18 mánuðum. Í raun er bætingin engin.

Það er mitt mat að sá norski eigi að fara þegar við eigum jafn augljósan og frambærilegan kost; Arnar Gunnlaugsson er maðurinn sem íslenska landsliðið þarf á þessum tímapunkti. Frábær í að setja upp leiki og líklega er erfitt að finna þjálfara sem nær jafn vel til leikmanna, hann er líka töluvert ódýrari kostur fyrir sambandið. Þetta liggur bara í augum uppi, Arnar gæti tekið við um miðjan desember þegar Evrópuævintýri Víkings lýkur. Hann hefði þá þrjá mánuði til að undirbúa undankeppni Heimsmeistaramótsins.

Þeir sem stjórna sambandinu þurfa á næstu dögum og vikum að meta stöðuna, Hareide er dýr kostur sem virðist ekki hafa neinn sérstakan áhuga á að verja miklum tíma hér á landi. Ráðning hans hefur í raun misheppnast, fyrrum stjórn KSÍ réð Hareide til starfa til að komast inn á Evrópumótið í Þýskalandi sem fram fór í sumar. Það tókst ekki en eftir situr reikningurinn, laun til Hareide og laun til Arnars Þórs sem fékk greitt í meira en tólf mánuði frá brottrekstri sínum.

Sambandið þarf að skera niður og þarna er fita sem hægt er að ráðast á, Arnar er svo að öllum líkindum færari þjálfari en Hareide.

Hareide hefur frá fyrsta degi í starfi sýnt lítinn áhuga á því að vera hér á landi, hann er ekki fyrsti erlendi þjálfari okkar á síðustu árum en sá þjálfari sem hefur minnstan áhuga á að vera hérna. Hann heldur blaðamannafundi sína í gegnum Zoom í stað þess að mæta til landsins, hann kemur iðulega til landsins eins seint og mögulegt er.

Ef íslenska liðið leikur á erlendum vettvangi þá kemur Hareide ekki til landsins. Samskipti í gegnum tölvu koma aldrei í staðinn fyrir hitt, þegar teymi þarf að vinna saman á stuttum tíma þurfa tengsl og traust að vera til staðar. Þau verða aldrei mynduð í gegnum tölvuskjá.

Allt starfslið Hareide er hér á landi, mörgum þætti eðlilegt að norski þjálfarinn myndi eyða nokkrum dögum með þeim áður en hópurinn kemur saman en svo er ekki. Því má efast um að skipulagið sé eitthvað sérstaklega gott. Lars Lagerback og Erik Hamren sem ættu flestum að vera í fersku minni voru miklu meira á svæðinu, voru í meiri tengingu við starfsfólk KSÍ, við félögin í landinu og þar fram eftir götunum.

Ummæli Hareide á dögunum um að lítil pressa sé í starfi íslenska landsliðsþjálfarans segir svo alla söguna, hann er ekki í neinum tengslum við fólk hérna og áttar sig ekki á mikilvægi landsliðsins fyrir land og þjóð.

Það má þó ekki taka af Hareide að hann er skemmtilegur maður, líflegur og beittur en hann er 71 árs gamall og hefur átt frábæran þjálfaraferil. Líklega er metnaðurinn farinn að dvína en launatékkinn úr Laugardalnum er það sem heldur honum í boltanum. Það er kominn tími á breytingar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Stefnir allt í að Tuchel taki við enska landsliðinu – Viðræður langt komnar

Stefnir allt í að Tuchel taki við enska landsliðinu – Viðræður langt komnar
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Börkur hættir hjá Val eftir 21 ár

Börkur hættir hjá Val eftir 21 ár
433Sport
Fyrir 19 klukkutímum

United skoðar þrjá leikmenn Bayern

United skoðar þrjá leikmenn Bayern
433Sport
Fyrir 20 klukkutímum

Auglýsing á Laugardalsvelli veldur ólgu í Tyrklandi

Auglýsing á Laugardalsvelli veldur ólgu í Tyrklandi
433Sport
Fyrir 23 klukkutímum

Gröfurnar mæta á fimmtudag og byrja að rífa grasið af Laugardalsvelli

Gröfurnar mæta á fimmtudag og byrja að rífa grasið af Laugardalsvelli
433Sport
Í gær

Í leyfi frá störfum eftir að ungur sonur hans lést

Í leyfi frá störfum eftir að ungur sonur hans lést