Óvíst er hvað tekur við eftir að Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, ákvað að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu á sunnudag. Hann sagði þó í Silfrinu í gær að hann myndi biðjast lausnar fyrir sig og sitt ráðuneyti ef ekki næðist sátt um samstarf ríkisstjórnarinnar fram að kosningum.
Steinunn Ólína sat fyrir framan sjónvarpið í gærkvöldi og skrifaði færslu á Facebook þar sem hún viðraði sínar hugmyndir.
„Óvinsælasti stjórnmálamaður Íslandssögunnar slítur ríkisstjórn. Þar með er hann úr sögunni. Nú þurfum við starfhæfa stjórn, vitanlega án aðkomu eða eftir stjórnlyndi Bjarna enda skráði hann sig úr leik og mun biðjast lausnar. S. Ingi er kjörinn til að leiða bráðabirgðarstjórn, hann er okkar reyndasti vararáðherra og alveg til í það,“ segir hún og bætir við að undir slíkri bráðabirgðastjórn gefist kjósendum loksins tækifæri til að sjá hvernig þingið starfar án Bjarna og Katrínar Jakobsdóttur.
„Ég er ekkert viss um að slík stjórn þurfi að vera neitt verri en það sem verið hefur, eitthvað gæti batnað meira að segja og svo er þá hægt að ganga til kosninga í rólegheitum eftir áramót,“ segir hún.
„Eftir að horfa á Silfrið segi ég bara fyrir mig: Nú vildi ég að starfandi þingmenn og ráðherrar kæmu sér saman um að vinna að hagsmunum landsmanna eingöngu en eyða ekki dýrmætum tíma okkar í andlitslyftingar og loforðaflaum um hvað þau séu tilbúin til kosninga. Því trúir enginn,“ segir hún.
Steinunn Ólína segir loks að almenningur vilji ekki fleiri hol loforð og glatað valdabrölt.
„Við viljum að verkin séu unnin. Þau verk þarf að vinna NÚNA! Ef þingmenn og ráðherrar landsins bera hag landsmanna fyrir brjósti þá ganga þeir samtaka til verka um aðalatriðin og sýna hvað í þeim býr. Af ástríðu. Þegar við höfum séð það raungerast, þá er hægt að kjósa.“