Live Science segir að rannsóknin hafi leitt í ljós að mun meiri líkur séu á að aðstoð berist skjótt og að fólk lifi af að lenda í snjóflóði í dag en fyrir fjörtíu árum.
Snjóflóð geta orðið fólki að bana á margvíslegan hátt. Flestir látast af völdum áverka sem þeir hljóta þegar þeir lenda í flóðinu, sumir kafna og aðrir verða ofkælingu að bráð. Tíminn skiptir því miklu máli enda er flestum, sem lifa það af að lenda í snjóflóði, bjargað á fyrstu fimm mínútunum eftir að þeir lenda undir snjónum.
Fyrsta alvöru rannsóknin á afdrifum þeirra sem lenda í snjóflóðum var gerð fyrir 30 árum. Í henni var rannsakað hvernig fólki, sem lenti í snjóflóði í Svissnesku Ölpunum, reiddi af. Þá lifði tæplega helmingurinn af og nær öllum, sem lifðu af, var bjargað innan fimmtán mínútna frá því að þeir grófust undir snjónum.
Frá því á tíunda áratugnum hafa traustari aðferðir verið þróaðar til að spá fyrir um snjóflóð og ný tækni, sem eykur líkurnar á að fólk finnist og sé bjargað, hefur komið fram á sjónarsviðið. Niðurstöður nýju rannsóknarinnar sýna að þessi þróun hefur aukið líkurnar á að fólk lifi það af að lenda í snjóflóði.
Í rannsókninni, sem hefur verið birt í vísindaritinu JAMA Network Open, var rannsakað hvernig fólki, sem lenti í snjóflóðum í Sviss frá 1981 til 2020, reiddi af. Á þessum árum lentu rúmlega 7.000 manns í snjóflóðum í landinu. Þar af grófust 1.643 svo mikið að snjór huldi höfuð þeirra og bringu.
Dr. Hermann Brugger, meðhöfundur rannsóknarinnar, sagði í samtali við Live Science að ef fólk, sem lendir í snjóflóði, endar ofan á flóðinu eða grefst aðeins að hluta í því, með höfuð og bringu upp úr, þá séu lífslíkurnar rúmlega 90%. Ef höfuð og bringa eru alveg hulin snjó, þá eru lífslíkurnar um 53% sagði hann.
Rannsóknin sýnir að frá 1990 hafa lífslíkur, þeirra sem lenda í snjóflóðum, aukist úr 43,5% í 53,4%. Þessi tala virðist kannski ekki há en það er tíminn sem skiptir mestu. Hjá fólki, sem var grafið í snjó skemur en 10 mínútur, voru lífslíkurnar 91% en eftir 15 mínútur voru lífslíkurnar komnar niður í 76%. Eftir 30 mínútur lifði tæplega þriðjungur af.