Réttarhöld Benjamin Mendy gegn Manchester City eru fairn af stað en franski leikmaðurinn krefur félagið um 11 milljónir punda eða um 2 milljarða í ógreidd laun.
City hætti að borga Mendy laun og taldi hann hafa brotið samning félagsins þegar hann var ákærður fyrir kynferðisbrot.
Fjöldi kvenna ásakaði Mendy um kynferðisbrot en hann var hreinsaður af öllum ásökunum.
Meint brot áttu mörg að hafa átt sér stað í gleðskap sem hann og leikmenn City héldu í COVID. „Fjöldi leikmanna City, þar á meðal fyrirliði félagsins í dag mættu í þessu partý sem ég mætti í og þau sem ég hélt,“ sagði Mendy í dómsal.
Þar á hann við Kyle Walker. „Við drukkum allir áfengi, við nutum allir ásta með konum. Við brutum allir COVID-19 reglur, þetta afsakar ekki mína hegðun. Það er hins vegar ekki sanngjarnt að félagið refsi mér einum fyrir það.“
„Munurinn á mér og öðrum leikmönnum CIty er að ég var ranglega sakaður um nauðgun og niðurlægður opinberlega.“
„Ég var klár í að spila fyrir Manchester City eins og aðrir leikmenn sem félagið vissi að hefðu verið þarna. Ég veit ekki til þess að félagið hafi hætt að greiða öðrum laun.“
„Mér finnst Manchester City hafa gert rangt með því að setja mig einan til hliðar þegar allt liðið var að gera það sama.“
Mendy varð blankur þegar launin hættu að koma og endalaus kostnaður við lögfræðinga kom upp. „Raheem Sterling, Bernardo Silva og Riyad Mahrez lánuðu mér allir pening til að borga lögfræðingum og styðja við fjölskyldu mína,“ segir Mendy.