fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Eyjan

Diljá vill á þing en viðurkennir að kunna ekki allar leikreglur – „Tilfinningarík kona sem gæti tekið upp á því að beygja af í pontu“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 14. október 2024 16:30

Diljá Ámundadóttir Zöega

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mig langar að deila einu með ykkur en mig langar að verða Alþingiskona,“ segir Diljá Ámundadóttir Zöega í framboðsyfirlýsingu sinni. 

Diljá sat í borgarstjórn í 12 ár, en hún viðurkennir að þrátt fyrir það kunni hún samt ekki alveg að tala reiprennandi pólitísku né hinar pólitísku leikreglur.

„Ég er betri í að taka ákvarðanir byggðar á innsæinu en byggðar á rökum og gögnum. Ég er ekki skarpasti né beittasti hnífurinn í skúffunni, en ég myndi segja að ég væri meira eins og ávöl skeið með smá dýpt.Ég er mikil tilfinningavera og fátt er mér jafn mikilvægt en að rækta geðheilsu mína. Ég get lesið mér mennsku ágætlega til gagns en ég veit ekki hvernig ég kæmi út í PISA könnunum í hraðlestri til dæmis.“

Góðar undirtektir hjá formanni Viðreisnar

Diljá er skráð í Viðreisn og segir hún að eftir langa leggju undir feldi og góð samtöl við trúnaðarvini með dómgreind og innsæi, hafi hún komist að þeirri niðurstöðu á vormánuðum að hana langi virkilega að snúa aftur í stjórnmálin og nú stefna á Alþingi. Hún hafi tilkynnt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttir, formanni Viðreisnar fyrirætlan sína í vor, fengið góðar móttökur og sig hlakki til að sjá prófkjörin verða að veruleika.

„Núna fyrr í haust fengum við í Viðreisn æðislegan liðsauka í vini mínum og bandamanni Jón Gnarr. En fyrir þau sem ekki vita þá hófst mín (og hans!) óvænta stjórnmálaþátttaka auðvitað í Besta flokknum árið 2010. Mikið þætti mér vænt um að fá að starfa með honum á ný og nú á Alþingi. Þegar ég hélt að kosningar yrðu mögulega næsta vor stefndi ég á að sækjast eftir 2.sæti í prófkjörinu í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu og ætlaði að undirbúa mig í vetur. Bæði á líkama og sál og svo er ég líka skráð í nám við HÍ, viðbótardiplómu í Áhættuhegðun og velferð barna og ungmenna. Skerpa á þeim málaflokkum sem ég vil beita mér fyrir þegar/ef ég fer inn á Alþingi. En núna blasir jú önnur staða við. Kosningar eftir 45 daga eða í lok nóvember.“

Segir Diljá að Viðreisn ætli að kjósa um hvort verði farið í prófkjör eða uppstillingu núna síðar í vikunni og hún sé til í bæði.  

„Ef til uppstillingar kemur þá vona ég bara að mér verði sýnt það traust að vera stillt upp í 2. sætið og Jóni í 1. sætið. Þannig lítur nú einfaldlega mín ósk út. Eina sem ég get gert að setja hana út í loftið og sá því fræi í (vonandi) frjósama mold innan Viðreisnar.“

Viðurkennir að kunna ekki alveg á pólitísku pólana

Þrátt fyrir að vilja í stjórnmál og vera í Viðreisn segist Diljá ekki vita hvar hún er staðsett á hinum pólitíska ás og viðurkennir að hún kann ekki alveg á þessa póla.

„Ég myndi segja að ég væri svona velferðar-pólitíkus en hvað þýðir velferð, vel ferð? Ég vil innilega að fólki líði vel á þessu lífsins ferðalagi sem það er á eða þýðir velferð að ég vil velja vegferðina sem ég á?

Talandi um valfrelsi. Kannski er bara ég frjálslynd eða aðhyllist frelsi til að velja. Mér finnst allavega það að upplifa frelsi mjög mikilvægt sjálf og vil öðrum það líka. Ég er á því að það séu mennsku innviðirnir sem skipta mestu máli í samfélaginu okkar.“

Segist vita að hún er ekki allra

Diljá segist vita vel að það er fólk þarna úti sem skilur ekki hvað hún  er að vilja upp á dekk með því að segjast vilja fara á Alþingi með þessa framangreindu eiginleika og viðhorf. 

„Tilfinningarík kona sem gæti tekið upp á því að beygja af í pontu. Kannski með fyrirtíðaspennu eða perimenó. Ekkert pláss fyrir slíkt á háttvirtu. Eða hvað?

Viljum við ekki spegla samfélagið okkar á Alþingi? “

segir Diljá sem segist finna í hjartanu að hún eigi erindi á Alþingi. 

„Ég miða mitt erindi, eða mín erindi í fleirtölu, við minn reynsluheim. Þaðan kemur olían á ástríðu- og hugsjónaeldinn minn. Ég vil fyrst og fremst vera mennskan í fagmennsku.

*Verndum örmagna ofurhetjur

Síðast liðin 6 ár hefur reynsluheimur minn hverfst um að vera einstæð móðir langveiks og fatlaðs barns. Ég er ein af þúsundum foreldra í þessari viðkvæmu stöðu. Ég held að okkur sé best lýst sem örmagna ofurhetjum. Álagið á okkur er mikið frá degi til dags en við verðum samt að halda áfram. Mörg okkar glíma við álagstengda heilsubresti og þeir geta haft áhrif á starfsgetu okkar. Ég hef persónulega rekið mig á það að við sem hópur þurfum á auknum og verndandi réttindum í atvinnulífinu. Ég er nú þegar með tillögur að lögum og lagabreytingum hvað það varðar sem ég mun beita mér fyrir þegar/ef ég fer inn á Alþingi.

*Inngilding þarf ekki að vera flókin

Ég mun einnig koma til með að leggja áherslu á að fatlað fólk hafi mun meira frelsi til að velja að gera það sem það vill gera í lífi sínu td sækja nám á sínu áhugasviði eða vinna við það sem það brennur fyrir. Það er því miður oft samfélagið okkar sem fatlar fólk en ekki öfugt. Ég er nú þegar með tillögur að inngildandi hvötum fyrir allskonar og algilt aðgengi sem ég mun beita mér fyrir þegar/ef ég fer inn á Alþingi.

*Hlúum að rótunum – og leyfum börnum að blómstra

Ég er ein þeirra mörgu sem á svokallaða áfallasögu. Ég hef upplifað erfiðar reynslur frá því ég að ég var lítil stelpa. Ég hef líka verið gripin af verndarengli innan úr kerfinu. Konu sem vildi skapa kerfi fyrir fólk en ekki fólk fyrir kerfi,“

segir Diljá sem opnaði sig  í forsíðuviðtali við Fréttablaðið í febrúar 2022. 

Vill nýta stöðu sína eins og Guðrún Ögmunds gerði fyrir hana

Diljá rifjar upp símtal við vinkonu sína, Guðrúnu Ögmundsdóttur, fyrrum alþingismanni, sem lést árið 2019. 

„Diljá mín, ég lét semsagt bara breyta reglunum þannig að núna átt þú rétt á þessum skólastyrk. Það er nú bara þannig að stundum kostar það smá pening í dag til að spara hann í framtíðinni. Þú sannar það bara fyrir mér með því að halda áfram að vera hörkudugleg og láta verða eitthvað úr þér.” Þetta sagði Gunna Ögmunds við mig í símtali árið 1998. Ég var nemandi í Kvennó, bjó ein í herbergi á Frakkastíg og vann myrkrana á milli til að eiga fyrir húsaleigu og mat. Ég var við það að gefast upp og fara bara alfarið út á vinnumarkaðinn þegar elsku Gunna greip inn í. Þá formaður, það sem í dag er kallað, Velferðarráðs.

Ég vil nýta stöðu mína og áhrifavald eins og Gunna Ögmunds gerði fyrir mig – og mörg mörg önnur hérna úti í samfélaginu.“

Vill taka farsældarlögin lengra

Diljá segist virkilega hrifin af og aðhyllast margt í lögum um Farsæld barna hans, sem Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, lagði fyrir Alþingi. Segist hún gjarnan vilja fá tækifæri til að vinnan innan málaflokksins þegar/ef hún fer á Alþingi. Hún vilji þó taka ákveðna þætti laganna lengra og gera skilvirkari. 

„Ég myndi vilja innleiða markvissa Áfallamiðaða nálgun inn í kerfi sem snúa að börnum. Nú þegar við erum að fá meiri upplýsingar og niðurstöður úr rannsóknum á borð við Áfallasaga íslenskra kvenna og ACE-rannsókninni þá verðum við sem viljum vera við stjórnvölinn að taka mið af afleiðingum áfalla og viðvarandi álags og streitu.

Áföll sem ekki eru ávörpuð og unnið úr leiða til heilsubresta á borð við geðheilsuvanda, fíknisjúkdóma og jafnvel hjartasjúkdóma og krabbameins. Streita (þmt. áfallastreita) er mjög alvarlegur og algengur orsakavaldur á heilbrigðisvanda.

Það að hlúa að rótum er eins og að vera með plöntu í potti þar sem moldin er þurr og meygluð. En reyna bara að klippa af brúnu skrælnuðu blöðin og vona að plantan lifi það af. Við sem samfélag getum gert miklu betur í þessari plönturækt.“

Að geta lesið sér mennsku til gagns

Diljá segist hjartanlega sammála Guðrún Karls Helgudóttir biskup, sem velti fyrir sér skort á samkennd í samfélaginu okkar í grein sem hún birti á dögunum. 

„Þegar Pisa-kannanir sýna að íslensk börn eiga erfiðara með að sýna samkennd en börn í löndum sem við kjósum að bera okkur saman við, þá er eðlilegt að við spyrjum okkur: Hvað gerðist?“

Ég tel það morgunljóst að við þurfum að bæta kennslu félags- tilfinninga og siðferðisfærni (e. SEE -learning) við námskrár allra skólastiga. Til eru fjölmargar rannsóknir í jákvæðri sálfræði sem sýna fram á ávinning þess að efla börn í þessum eiginleikum frá unga aldri,“ segir Diljá.

Prestur gæti verið plan B

Diljá endar færslu sína um þingmennskuna á gamansömum nótum og ljóst að plan B gæti verið á allt öðrum stað:

„Góður vinur minn og peppari í pólitík sagði að ef þessi draumur minn um að verða Alþingiskona gengi ekki upp þá ætti ég að skoða það að gerast prestur. Þar hafið þið það.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast