Ekki liggur fyrir hversu mörg tilfelli hafa komið upp en í umfjöllun ABC News kemur fram að tilkynnt hafi verið um atvik í Minnesota, Los Angeles og El Paso.
Ryksugurnar sem um ræðir eru af tegundinni Deebot X2 og virðist öryggisbrestur í hugbúnaði þeirra hafa gert hökkurum auðvelt að komast inn í þær.
Í frétt ABC er rætt við Daniel Swenson, lögfræðing í Minnesota, sem vissi vart hvaðan á hann stóð veðrið þegar hann heyrði rödd koma úr ryksugunni sem öskraði „f***ing *ni***rs“ á hann og fjölskyldu hans. Svipað dæmi kom upp í El Paso.
Og í Los Angeles komust hakkarar inn í ryksugu á heimili einu og gerðu heimilishundinn logandi hræddan þegar þeir náðu stjórn á ryksugunni og eltu hann.
Ecovacs hefur neitað því að öryggisbrestur af einhverju tagi sé í snjallryksugum fyrirtækisins. Í umfjöllun ABC er þó bent á að fréttamenn hafi séð þennan öryggisbrest sjálfir þegar þeir fengu sérfræðing til að hakka sig inn í hugbúnaðinn. Gat hann með tiltölulega einföldum hætti séð það sem var í gangi í gegnum myndavél á ryksugunni.
Í umfjöllun Gizmodo eru kaupendur snjalltækja, eiginlega af hvaða tegund sem er, hvattir til að kynna sér hvort tækin uppfylli allar nauðsynlegar öryggiskröfur. Þá eru notendur hvattir til að nota ekki Pin-númer eins og 0000 eða 01234 til að skrá sig inn í tækin.