Tónlistarmaðurinn, Stefán Jakobsson, eða Stebbi Jak, eins og hann er jafnan kallaður, varð fyrir líkamsárás í vinnunni um helgina.
Stebbi og eiginkona hans, Kristín Sif Björgvinsdóttir, voru veislustjórar í partýi sem Kristín segir að hafi verið alveg frábært. Á næsta giggi var Stefán einn á sviðinu að skemmta á árshátíð og beið Kristín Sif á meðan inn í fundarherbergi enda hjónakornin síðan bara á leiðinni heim eftir giggið.
„Það var frítt áfengi í boði og við vitum það að fólk missir sig pínulítið þegar það er frítt áfengi í boði. Klukkan var yfir 11 og maður sá hvernig standi fólk var í,“ segir Kristín Sif í Ísland vaknar í morgun þar sem hún lýsir atvikinu.
Segist hún hafa heyrt Stebba spila og gestina taka undir og frábær stemning í gangi. Eftir að Stebbi hafði spilað í um 40 mínútur stoppaði hann i miðju lagi, og heyrir Kristín Sif hann síðan byrja aftur að spila.
„Ég hugsa að hann hafi kannski bara slitið gítarstreng eða eitthvað. Er ekkert að pæla meira í því. Nema þegar ég fer fram, hitti ég góða vinkonu mína, og hún sagði: „Veistu að Stefán var kýldur?“
Drukkin kona var með almenn leiðindi og truflun við Stebba á meðan allir aðrir gestir voru að skemmta sér.
„Síðan kallar Stefán á hana og segir: „Má ég ekki bara vinna vinnuna mína? Viltu að ég komi til þín á mánudagsmorgun og segi þér hvernig þú átt að vinna þína vinnu?“ Þá varð hún eitthvað leið, greyið konan, og fór og náði í manninn sinn. Kemur hann, kauði, örugglega búinn að drekka jafn mikið – og kýlir Stefán í hausinn,“ segir Kristín Sif.
Eins leiðinlegt og þetta atvik er þá segir Kristín Sif þetta ekki í fyrsta sinn sem Stebbi verður fyrir því að fólk er að áreita hann á djamminu, þegar hann er sjálfur í vinnunni.
„Það fer alveg ógeðslega mikið í mínar fínustu taugar,“ segir Kristín Sif.
Þór Bæring meðþáttastjórnandi Kristínar Sifjar í morgunþættinum Ísland vaknar er sjálfur vanur plötusnúður og segist hann kannast við leiðindin og virðingarleysið sem fólk með áfengi með sér í liði leyfir sér oft að sýna skemmtikröftum þegar þeir eru einungis að sinna vinnunni sinni.
Kristín Sif segist ítrekað lenda í því að drukknar konur, jafnvel með eiginmann sinn við hlið sér, spyrji hana hvernig er að sofa hjá Stebba og hvort þær megi fara í sleik við hann.
„Ég ætla að segja krakkar! Nennið þið að haga ykkur á djamminu og látið þið fólk sem er að vinna vinnuna sína í friði!“
Hlusta má á brotið úr þættinum hér.