Íris Hólm Jónsdóttir, tónlistar- og leikkona, og Arnar Jónsson tónlistarmaður, eru nýtt par.
Parið opinberaði samband sitt á Facebook um helgina með því að birta myndir af sér í brúðkaupi.
Arnar gaf á föstudag út lagið Tales of Blue, sem er fyrsta lagið af væntanlegri plötu hans. Arnar semur lagið, og Íris textann, en hún syngur einnig með Arnari í laginu.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem parið vinnur saman, því í vor voru þau hluti af íslenska Eurovision-hópnum og sungu bakraddir í lagi Heru Bjarkar, Scared of Heights. Arnar söng einnig bakraddir í laginu í Söngvakeppninni í febrúar og mars.
Íris er yfirkennari hjá Söngskóla Maríu Bjarkar, og hefur sungið bakraddir á mörgum tónleikum. Hún er einnig lærður förðunarfræðingur og hefur talsett barnaefni.
Arnar er mögulega þekktastur sem meðlimur strákasveitarinnar Luxor sem gerði garðinn frægan á árunum 2007 til 2008, en sveitin var tilraun Einars Bárðarsonar, umboðsmanns Íslands, til að gera strákaútgáfu af Nylon.
Arnar er með Bsc. gráðu í Vél- og orkutæknifræði frá HR og er jafnframt menntaður húsasmiður. Síðast gengdi hann starfi aðstoðarmanns skipulags- og byggingarfulltrúa í Rangárþingi eystra.
Bæði hafa spreytt sig í sjónvarpsraunveruleikaþáttum, Íris í X-Factor þar sem hún tók þátt sem annar hluti dúetsins Gís og Arnar í The Voice Ísland.