Ungur fjölskyldufaðir, Árni Þórmar Þorvaldsson, varð fyrir skelfilegu slysi á leikvelli í Hlíðunum fyrir viku síðan. Hálsbrotnaði Árni í kjölfar þess að festingar á hengirúmi gáfu sig. Árni greindi frá atvikinu í færslu á Facebook-síðu sinni:
„Ég fór með Birki og vin hans á róló eftir skóla og þeir voru að róla mér á hengirúmi. Staurarnir sem héldu því uppi voru gamlir, annar þeirra brotnaði, ég dett í jörðina og fékk staurinn í hausinn. Ég næ að staulast heim með Birki mjög verkjaður og þar hringir Bjarklind á sjúkrabíl.
Við förum beint uppá bráðamóttöku í sjúkrabílnum og í ljós kom í myndatökunni að efsti hálsliður væri tvíbrotinn.
Daginn eftir komst ég svo í aðgerð þar sem ég fékk þessa svakalegu græju skrúfaða fasta á mig. Hún mun vernda mig og hálsinn næstu 3 mánuði og eftir það tekur við endurhæfing í aðra 3 mánuði.“
Árni bar sig nokkuð vel er DV hafði samband við hann. „Ég er ágætur bara,“ segir hann. Hann lætur afar vel af vinnubrögðum starfsfólks á Landspítalanum í Fossvogi.
„Ég er í mjög góðum höndum, gott starfsfólk hérna í Fossvoginum. Það bjargaði mér.“
Árni gerir sér vonir um fullan bata í fyllingu tímans. „Ég myndi halda það. Þetta verður bara langur og strangur vegur en þetta mun á endanum koma.“
Spurningar vakna um öryggismál þegar búnaður á leikvelli gefur sig með svona skelfilegum afleiðingum. Aðspurðir segist Árni þó ekki vera farinn að huga að skaðabótamáli strax: „Maður tekur bara eitt skref í einu og það er bara vika síðan þetta gerðist.“
Hann segist ekki vita hvenær hann kemst heim af sjúkrahúsinu en núna ríður á að sýna þolinmæði og þrautseigju. „Þegar ég er orðinn fær um að sjá um mig sjálfur þá verður mér hleypt heim með hjálminn góða,“ segir Árni, nokkuð léttur í bragði, þrátt fyrir allt. DV sendir honum innilegar batakveðjur.