fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Þórhildur Sunna: Viljum við að ferðamannaiðnaðurinn vegi jafn mikið í íslensku efnahagslífi og hann gerir?

Eyjan
Mánudaginn 14. október 2024 15:30

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við þurfum að gera upp við okkur hvort við viljum að ferðamannaiðnaður, sem er að verulegu leyti mannfrek láglaunagrein gegni jafn veigamiklu hlutverki í íslensku efnahagslífi og raun ber vitni. Ferðaiðnaðurinn kallar á innflutning á miklum mannfjölda, sem þarfnast húsnæði og þjónustu. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segir ríkisstjórnina neita að viðurkenna að hér ríki neyðarástand í húsnæðismálum – ríkisstjórnin kenni öðrum um vandann en taki ekki ábyrgð á því leiðtogahlutverki sem hún á að gegna. Þórhildur Sunna er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.

Hægt er að hlusta á hlaðvarpið í heild sinni hér:

Einnig er hægt að hlusta á Spotify

„Stóra verkefni næstu ríkisstjórnar er auðvitað að taka á ástandinu í efnahagslífinu þar sem við erum með gríðarlega háa verðbólgu og þar spilar húsnæðismarkaðurinn gríðarlega stóra rullu,“ segir Þórhildur Sunna.

Hún segir mikinn húsnæðisskort ríkja hér á landi og þessi ríkisstjórn og sú sem á undan henni kom, sem sé í raun og veru sama ríkisstjórnin, neitað að horfast í augu við að ákveðið neyðarástand sé í gangi. „Hún hefur verið duglegri við að kenna öðrum um vandann frekar en að taka ábyrgð á sínu hlutverki sem leiðtogi í þessu samfélagi; að leiða saman þá aðila sem geta eitthvað gert í þessu neyðarástandi. Þá er ég að tala um vissulega sveitarfélögin, sem ríkisstjórnin hefur verið dugleg að benda á, en einnig lífeyrissjóðina og verkalýðsfélögin sem hafa öll eitthvað fram að færa í þessu og svo atvinnulífið, eða framkvæmdaaðila, og tryggja það að við förum í bæði skammtímalausnir, hratt og örugglega, og langtímalausnir líka til þess að mæta þessum vanda.“

Þórhildur Sunna segir að einnig verðum við að spyrja okkur að því hvort svo ótrúlega mannaflafrekur iðnaður og ferðamannaiðnaðurinn vegi jafn mikið og raun ber í íslensku efnahagslífi. „Þetta krefst þess að við flytjum inn gríðarlegt magn af fólki sem vinnur láglaunastörf og þarf auðvitað húsnæði, þjónustu, til þess að viðhalda þessari atvinnugrein sem er ekki skalanleg endalaust. Hún getur ekki haldið áfram að fylla öll eggin í körfunni okkar.“

Já, eins og þú bendir á þá er ferðaþjónustan láglaunaiðnaður.

„Aðallega láglaunaiðnaður. Síðan eru aðrir hlutir sem ég held að þjóðin setji í mikinn forgang líka. Við sjáum í öllum könnunum að heilbrigðiskerfið okkar er veikburða og getur ekki sinnt þeirri þjónustu sem það þarf að sinna. Geðheilbrigðismálin eru okkur öllum mjög ofarlega í huga og þar eru biðlistar langir, þjónusta af skornum skammti, erfitt að nálgast upplýsingar um það hvernig maður ber sig nákvæmlega að til að fá hjálp og allt of lítið um stuðning líka við aðstandendur þeirra sem eiga við geðræna erfiðleika að stríða, eða barna sem eiga við fjölþættan vanda að stríða.“

Hún segir félagslega kerfið hér á landi, velferðarkerfið, heilbrigðiskerfið, allt vera kerfi sem hafi kerfisbundið verið fjársvelt. „Það kostar auðvitað peninga að fjárfesta í þessum innviðum, en það sem það gefur okkur á móti, og ég má ekki gleyma því að minnast á menntakerfið í þessu samhengi, það sem það gefur okkur á móti því að ákveða að forgangsraða okkar miklu fjármunum í þessi kerfi er félagslegt öryggi. og Pírötum er mjög annt um öryggi samfélagsins, þvert á það sem margir trúa, kannski vegna þess að við höfum verið mjög andsnúin því að gefa lögreglunni færi á að njósna um óbreyta borgara séu þeir ekki einu sinni grunaðir um nokkurn skapaðan hlut.“

Hún segir Pírata sjá öryggi sem öruggt húsaskjól fyrir alla, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, aðgengi að félagslegri þjónustu, aðgengi að stuðningi þegar fólk gengur í gegnum áföll í lífinu, snemmtæka íhlutun, forvarnir og fleiri þætti sem efla öryggi í okkar samfélagi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt