Breska utanríkisráðuneytið hefur varað Breta sem ferðast við Íslands að vera ölvaðir á rafskútum. Ólíkt Bretlandi þá sé það ólöglegt á Íslandi.
Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins frá 11. október síðastliðnum eru Bretar beðnir um að fylgja íslenskum lögum á meðan þeir heimsækja landið. Ellegar eigi þeir á hættu að verða sektaðir eða jafn vel ákærðir fyrir refsiverðan glæp.
„Að keyra rafskútu eftir að hafa neytt áfengis er bannað með lögum á Íslandi. Sömu lög gilda um að keyra bíl undir áhrifum og leiðir til sekta og/eða ákæru,“ segir í tilkynningunni.
Refsing fyrir fyrsta brot sé að minnsta kosti 559 pund, eða 100 þúsund íslenskar krónur.
Þá er einnig bent á aðrar umferðarreglur sem eru öðruvísi á Íslandi en í Bretlandi. Svo sem að skylt er að keyra á hægri akrein, að ekki megi tala í símann án handfrjáls búnaðar og að ljósin á bílnum verða alltaf að vera kveikt.
Ný lög um rafskútur tóku gildi í sumar og er nú refsivert að keyra slíka skútu undir áhrifum áfengis. En ölvunarakstur á rafskútum var og er orðinn mikið vandamál. Um liðna helgi slösuðust tveir einstaklingar eftir ölvunarakstur á rafskútum og voru fluttir á bráðamóttöku með skurði á höfði.
Áður giltu sömu reglur um rafskútur og reiðhjól en nú eru þær flokkaðar sem smáfarartæki. Sömu reglur gilda um neyslu áfengis á þeim og á bílum. Mörkin eru 0,5 prómill vínanda.