Ef fólk er að huga að barneignum, þá getur verið gott að hugleiða það sem er kallað „sæðisheilbrigði“ en það er lykilatriði varðandi frjósemi karla.
Það er ekkert gefið í þeim efnum og Justin Chu, læknir við frjósemisdeild TFP Oxford Fertility, sagði í samtali við Metro að það sé að ýmsu að hyggja fyrir karla þegar kemur að því að halda sæðinu heilbrigðu. Það sé hægt að eyðileggja það með ýmsu.
Hann sagði að það að fara í of heitt bað/sturtu eða of kalt bað/sturtu geti haft neikvæð áhrif á gæði sæðis. Því sé rétt að nota blöndunartæki og halda hitanum eða kuldanum í hófi. Hann sagði að oftast sé vatnið 37 til 41 gráða þegar fólk baðar sig en kjörhitinn fyrir sæðisframleiðslu sé 34-35 gráður.
Hann sagði að það að hjóla í meira en fimm klukkustundir á viku dragi úr sæðisframleiðslu og gæðum sæðis. Líklega sé því um að kenna að eistun hitni þegar hjólað er en það hafi áhrif á gæði sæðisins.
Hann varar karla einnig við að sitja með fartölvuna í fanginu því það dregur úr gæðum sæðisins vegna rafbylgna sem tölvan sendir frá sér.
Of þröngar nærbuxur geta haft neikvæð áhrif á sæði og mælir Justin með því að karlar klæðist víðum nærbuxum ef þeir geta komið því við.
Áfengisneysla er ekki til þess fallinn að bæta gæði sæðis því alkóhól getur haft neikvæð áhrif á starfsemi eistnanna og komið í veg fyrir þróun sæðis og dregið úr hreyfigetu þess.