Gröfin, sem er nærri bænum Quedlinburg í Saxony-Anhald, er ein 16 grafa sem hafa fundist þar. Þarna voru glæpamenn, sem höfðu verið teknir af lífi með hengingu, grafnir frá því um 1660 þar til snemma á nítjándu öld.
Ástæðan fyrir steinunum á bringu mannsins er að þeir áttu að koma í veg fyrir að hann gæti risið upp frá dauðum.
Marita Genesis, sem stýrir uppgreftrinum, sagði í samtali við Live Science að fólkið, sem var jarðsett þarna, hafi hugsanlega dáið ótímabærum dauða án þess að hafa játað sök eða fengið aflausn synda sinna. Fólk hafi óttast að það myndi snúa aftur úr ríki hinna dauðu og því hafi verið gripið til margvíslegra aðgerða til að koma í veg fyrir að það gerðist.
Auk þess að setja steina á líkin, þá voru útlimir hinna látnu stundum bundnir saman, viðarkrossar voru settir á líkin eða þau þakin með burstaviði.
Beinagrindin ber þess engin merki að maðurinn hafi verið tekinn af lífi en rétt er að hafa í huga að hvorki henging eða drukknun hefðu skilið eftir sig ummerki.