Kennarar eru margir hverjir fokvondir yfir ummælum sem Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, lét falla á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í gær.
„Að kennararnir séu að biðja um að fá að vera minna með börnum, en eru samt veikari en nokkru sinni fyrr, kenna minna og einhvern veginn fleiri undirbúningstímar“, sagði borgarstjóri meðal annars í umræðum um fyrirhuguð verkföll kennara sem boðuð hafa verið í átta grunnskólum þann 29. október næstkomandi.
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir í samtali við RÚV í dag, að hann voni að þekkingarleysi hafi ráðið orðum borgarstjóra og að hann myndi biðjast afsökunar á þeim.
„Ef við viljum fjárfesta í kennurum og búa þar til stöðugleika og efla fagmennsku er Reykjavíkurborg í algeru lykilhlutverki,“ sagði Magnús Þór.
Kvaðst hann ennfremur bjartsýnn á að árangur myndi nást í samningaviðræðum við kennara þótt enn bæri nokkuð á milli deiluaðila. Ef skriður komist á samningaviðræðurnar geti málið unnist hratt.