Undirskriftasöfnun er hafin gegn afnám persónuafsláttar þeirra sem búsettir eru erlendis. Útborganir munu rýrast um allt að 30 prósentum.
Í desember árið 2023 samþykkti Alþingi lög um afnám persónuafsláttar lífeyrisþega sem búsettir eru erlendis. Gildistöku þeirra laga var frestað um eitt ár og á breytingin að taka gildi 1. janúar árið 2025.
Þingmenn Flokks fólksins hafa lagt fram frumvarp um að persónuafslátturinn haldist. Það er frumvarp um breytingu á lögum um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld o.fl., nr. 102/2023, sem Inga Sæland formaður er fyrsti flutningsmaður að.
Undirskriftalistinn fór í loftið á þriðjudag og er í gildi til 8. janúar næstkomandi. Þegar þetta er skrifað hafa 330 manns skrifað undir. Þar er krafist að frumvarp Flokks fólksins verði samþykkt.
Í tilkynningu með listanum segir að ef frumvarpið verði ekki samþykkt munu lífeyrisþegar búsettir erlendis missa persónuafsláttinn og lækka í útborgunum um allt að 30 prósent á milli mánaða.
„Fyrir er þessi hópur skertur töluvert með búsetuskerðingum og fær engar félagslegar bætur sem eru stór partur af lífeyrisbótum,“ segir í tilkynningunni. „Með þessum lögum er verið að ráðast á þá sem hafa allra minnst í ráðstöfunartekjur. Þetta er verulega ljót aðför að öryrkjum og lífeyrisþegum hjá ríkisstjórninni og ég hvet alla til kynna sér alvöru málsins og skrifa undir.“
Á síðu Skattsins sést að persónuafsláttur á árinu 2024 getur verið allt að 64.926 krónum á mánuði eða 779.112 krónum á ári. Er því um töluverðar fjárhæðir að ræða fyrir lífeyrisþega.
Á síðunni Kalli á Spáni, sem Karl Kristján Hafsteinn Guðmundsson heldur úti, segir:
„Þessi nýju lög mismuna Íslendingum sem búsettir eru erlendis með lífeyristekjur frá Íslandi með tvennum hætti – annars vegar uppruna teknanna og hins vegar eftir tvísköttunarsamningsgerðinni á milli Íslands og búsetulandsins.“
Auk þess að leggja fram frumvarpið hafa þingmenn Flokks fólksins barist hart gegn breytingunni. Í grein í Morgunblaðinu í janúar á þessu ári sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður, að ríkisstjórnin hefði sett heimsmet í lágkúru. Það er með því að beita öldruðu og veiku fólki fjárhagslegu ofbeldi rétt fyrir jól.
„Þau áform ríkisstjórnarinnar í skjóli nætur að fella brott persónuafslátt aldraðs fólks á eftirlaunum og öryrkja á lífeyrislaunum sem búa erlendis sýnir svart á hvítu einbeittan fjárhagslegan ofbeldishug hennar til þeirra sem reyna að lifa af í bútasaumuðu almannatryggingakerfi þeirra,“ sagði Guðmundur Ingi.
Undirskriftarlistann má nálgast hér.