Lukas Podolski er hættur í fótbolta en hann er 39 ára gamall í dag og hefur leikið sinn síðasta leik.
Podolski var síðasta samningsbundinn liði Górnik Zabrze í Póllandi en mun ekki spila fleiri leiki fyrir það félag.
Framherjinn kvaddi stuðningsmenn í Köln í Þýskalandi á dögunum en um 50 þúsund manns voru á vellinum.
Þessi fyrrum landsliðsmaður Þýskalands sneri aftur heim til Köln til að kveðja en hann spilaði í æfingaleik sem vannst 5-3.
Podolski spilaði með Köln frá 1995 til 2006 áður en hann gekk í raðir Bayern Munchen og síðar Arsenal.
Hann spilaði einnig 130 landsleiki fyrir Þýskaland og skoraði í þeim 49 mörk.
Podolski grét er hann kvaddi stuðningsmenn Köln og þakkaði fyrir þann stuðning sem hann hefur fengið í gegnum árin.