Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Blika er liðið varð Íslandsmeistari á dögunum, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is.
Ásta, sem lagði skóna á hilluna eftir að Blika tryggðu sér titilinn á dögunum, fór yfir víðan völl í þættinum og ræddi meðal annars árin í háskólaboltanum í Bandaríkjunum, en hún nam og spilaði fótbolta í Flórída í þrjú og hálft ár.
„Það líf var alveg líkt því að vera atvinnumaður, sérstaklega fyrir stelpur sem eru að stíga fyrstu skrefin. Maður fékk geðveikar aðstæður, geðveikt utanumhald, endalaus aðgangur að öllu því sem þú þarft, frábærir vellir,“ sagði Ásta.
Sem fyrr segir var skólinn hennar í Flórída, en fylkið hefur mikið verið í fréttum undanfarna daga vegna fellibylsins Milton.
„Þetta var reyndar í Suður-Flórída og sá staður er nokkuð öruggur núna. En það er hræðilegt að horfa á þetta. Ég þekki alveg stelpur sem voru með mér í liði sem eru þarna í kringum Orlando. Þetta er ekki gott,“ sagði Ásta.
Umræðan í heild er í spilaranum.