Fundi þingflokks Sjálfstæðismanna er nú lokið, án sérstakrar niðurstöðu. Frá þessu greinir RÚV sem ræddi við Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra. Bjarni sagði eðlilegt að funda vegna spennu í ríkisstjórnarsamstarfinu en engin tillaga hafi legið fyrir fundinum og því engin sérstök niðurstaða til að ræða um. Hann sagðist þó meðvitaður um veikleika í stjórnarsamstarfinu. Engin tillaga var borin upp á fundinum um að slíta stjórnarsamstarfinu.
„Við erum að ræða þessa stöðu vegna þess að það eru efasemdir um getu stjórnarinnar til að klára þingmálin í vetur. Það er alvarlegt mál og þess vegna komum við saman hér í dag,“ sagði Bjarni við RÚV. Vinstri Græn lýstu því yfir eftir landsfund sinn að flokkurinn hefði ekki áhuga á að aðhafast nokkuð frekar í orku- og útlendingamálum. Sú afstaða hefur komið Sjálfstæðismönnum í nokkuð uppnám. Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði í grein í vikunni að Vinstri Græn hafi ekki einhliða neitunarvald í ríkisstjórn, og ekki heldur heimild til að ákveða einhliða hvenær gengið verði til kosninga, en Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri Grænna, sagði opinberlega eftir landsfund að hún stefni á kosningar í vor, frekar en næsta haust þegar kjörtímabilinu lýkur formlega.