fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Hatrammar deilur fyrrum sambýlinga sem ráku saman sauðfjárbú – Konan freistaði þess að fá skiptastjórann rekinn

Ritstjórn DV
Föstudaginn 11. október 2024 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur féllst ekki á að víkja skiptastjóra, í búi fyrrum sambýlinga, úr starfi. Konan hafði gert ýmsar aðfinnslur við störf skiptastjóra sem hún taldi meðal annars hafa gert alvarlega sekan um vanrækslu gagnvart hagsmunum búsins og eins hafa tekið sér fé úr fjármunum sambýlinganna, án heimildar.

Um er að ræða fyrrum sambýlisfólk sem hafði rekið saman sauðfjárbú og átt þar að auki nokkuð af nautgripum. Þau slitu sambúð sinni árið 2022 og fóru fram á opinber skipti. Var þeim því skipaður skiptastjóri. Ýmiss ágreiningur hefur svo komið upp milli sambýlinganna í gegnum skiptin og hafa deilurnar nokkrum sinnum endað fyrir dóm.

Margar og alvarlegar aðfinnslur

Konan gerði alvarlegar og margar aðfinnslur við störf skiptastjóra. Helst sárnaði henni að þegar fyrrum sambýlismaður hennar flutti af jörðinni, þá tók hann með sér nautgripi og nokkuð af tækjum. Skiptastjóri hafi ekkert skipt sér að þessu, þrátt fyrir að konan hafi ítrekað beðið hann um að gæta hagsmuna búsins. Nú hafi nautgripirnir blandast saman við aðra gripi á nýju búi mannsins og því erfitt að átta sig á því tjóni sem búið hefur orðið fyrir. Skiptastjóri hafi eins neitað að verðmeta nautgripi á réttum forsendum, en hann hafi til dæmis ekki horft til þess að kálfar hefðu fæðst eftir að sambýlismaðurinn fyrrverandi tók nautgripina með sér.

Eins hafi hann tekið með sér nauðsynleg tæki, ekki greitt fyrir afnot af þeim og þar með hafi konan neyðst til að taka tæki á leigu, fá að láni eða ráða til sín verktaka.

Skiptastjóri hafi eins ekki tryggt að tekjur vegna ullar hafi runnið inn á sameiginlegan reikning búsins. Eins hafi fyrrum sambýlismaðurinn tekið bifreið sem tilheyrði búinu, selt hana og ekki lagt andvirðið inn á sameiginlegan reikning.

Eins hafi skiptastjóri reiknað sér þóknun fyrir störf sín og tekið hana út af reikningum búsins, án þess að fá það sérstaklega samþykkt frá fyrrum sambýlingunum.

Konan gerði eins alvarlegar athugasemdir við framkomu skiptastjóra í sinn garð. Hún hafi ítrekað leitast eftir því að kaupa fyrrum sambýlismann sinn út úr jörðinni og búrekstrinum. Til þess hafi hún ítrekað lagt fram tilboð sem skiptastjóri hafi ekki brugðist rétt við. Hafi hann til dæmis krafið hana um að sanna að hún væri borgunarmanneskja fyrir kaupverðinu, en aðrir tilboðsgjafar hafi ekki verið krafðir um það sama.

Aðfinnslurnar voru enn fleiri meðal annars taldi konan að skiptastjórinn væri ekki með gilda ábyrgðartryggingu og að hann hafi skapað búinu verulegan kostnað með óþarfa vinnu. Hann hafi eins vanrækt greiðslu veðlána svo dráttarvextir féllu á búið. Eins hafi skiptastjóri ekki gætt þess að allar eignir búsins voru skráðar á konuna en allar skuldir á manninn. Þetta gerði að verkum að tekjur búsins virtust mun hærri en þær voru í raun á meðan maðurinn gat notið skattahagræðis af skuldunum í nýjum rekstri sínum. Skiptastjóri hafi látið sameiginlegan rekstur búsins á hennar herðar og ekki greitt allan útlagðan kostnað. Ógreiddur kostnaður konunnar næmi rúmum 4 m.kr.

Skipti gengið brösuglega út af hatrömmum deilum

Skiptastjórinn neitaði sök. Hann sagðist hafa reynt hvað hann gæti til að skipta eigum búsins en það gengið brösuglega. Til dæmis hafi hann reynt að selja lausafé en konan mótmælt því þar sem hún taldi sig hafa not fyrir tækin við búrekstur. Allar eigur búsins sé þekktar en óseldar og skipti því ekki máli hvort konan eða maðurinn hafi eignirnar í sínum vörslum. Staðan sé sú að uppgjör hafi ekki farið fram. Hann muni taka tillit til greiðslna vegna ullar við uppgjör milli aðila, og ekkert liggi fyrir um að fyrrum sambýlismaðurinn hafi misfarið með fjármuni búsins.

Hann hafi með skýrum hætti áskilið sér rétt til greiðslu fyrir vinnu sína upp í áfallinn kostnað. Það hafi hann gert á skiptafundi og ítrekað á öðrum fundi. Hann hafi ekki tafið framgang skiptanna heldur megi rekja tafir til hatramms ágreinings fyrrum sambýlisfólksins. Varðandi meinta skuld vegna vinnu konunnar við búið taldi skiptastjóri að um persónuleg útgjöld hennar væri að ræða sem bæri ekki að greiða.

Bæði Héraðsdómur og Landsréttur tóku undir með skiptastjóra. Ekki væri ástæða til að víkja honum frá störfum. Konan þarf því að greiða skiptastjóra 650 þúsund krónur í málskostnað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“
Fréttir
Í gær

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“
Fréttir
Í gær

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg